Ekki stendur til að skera frekar niður í þorskkvóta og mögulega þarf að endurskoða mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi.

Um áramót verða ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar sameinuð í eitt og það mun setja mark sitt á starfsemi næstu vikna og mánaða að sögn Einars. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins á kjörtímabilinu með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda.

Fram kom í máli Einars að hann telur breytta tilhögun við útboð tollkvóta til marks um þetta. Jafnframt á að afnema verðtilfærslugjöld og verðmiðlunargjöld. Hann segist þó ekki vera að boða kollsteypur, hann vilji að landbúnaðurinn sé öflugur áfram, en hann muni taka breytingum eins og annar atvinnuvegur.

Á fréttavéf RÚV kemur fram að skömmu eftir kosningar ákvað Einar að þorskaflaheimildir yfirstandandi fiskveiðiárs skyldu skertar um þriðjung frá því sem áður var. Hann sagði þá að frekari niðurskurður á næsta ári væri útilokaður. Einar segist geta staðið við það. Ef niðurskurður hefði verið minni hefði ekki verið hægt að ákveða lágmarksafla til lengri tíma. Hann segir að nú sjáist fyrstu áhrif mótvægisaðgerðanna sem gripið var til vegna aflaskerðingarinnar, sérstaklega vegna uppbyggingar innviða í sjávarbyggðum. Hins vegar geti verið að í ljósi þeirrar reynslu sem fæst að skoða þurfi þessi mál, mótvægisaðgerðirnar, aftur á næsta ári.