Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 9,1% á ársgrundvelli í júní, samanborið við 8,6% í maí, og hefur ekki verið meiri frá því í desember 1981.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,9% í júní, samanborið við 6,0% í maí. Mánaðarleg aukning kjarnaverðbólgunnar var þó meiri í júní heldur en í maí.

Bensín hækkaði mest í verði af helstu vöruflokkunum en bensínverð hækkaði um 11,2% á milli mánaða. Verðið hefur þó tekið að lækka á síðustu vikum.

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentur fyrir rúmum mánuði síðan vegna vaxandi verðbólgu. Í umfjöllun Financial Times segir að verðbólgutölurnar sem voru birtar í dag renni stoðum undir væntingar um aðra 75 punkta hækkun stýrivaxta síðar í mánuðinum.