*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 8. nóvember 2019 11:01

Ekki mikil merki um launaskrið

Hagfræðideild Landsbankans segir launaþróun í lágum takti og kaupmátt aukast enn.

Ritstjórn
Óvissa er um þróun launa því að langstærstur hluti opinbera markaðarins er enn með lausa samninga.
Haraldur Guðjónsson

„Enn sem komið er sjást ekki mikil merki launaskriðs, sem oft gerist þegar hækkanir eru mestar á neðri enda launaskalans,“ þannig hljóðar niðurlag Hagsjáar sem Hagfræðideild Landsbankans birti í morgun og fjallar um þróun launa og gerð kjarasaminga. 

Hægt hefur verulega á hækkun launa, sér í lagi þegar miðað er við árin 2016 og 2017 þegar 12 mánaða hækkun launa var lengi vel yfir 10%. Samkvæmt umfjöllun hagfræðideildar hækkaði launavísitalan um rúmt hálft prósent milli ágúst og september síðastliðinn. Þótt það sé tiltölulega mikil hækkun milli mánaða segir deildin það ekki óalgengt í þessum mánuði þegar sumarstarfsmenn hverfa á braut.  

Síðastliðna tólf mánuði nam hækkun launavísitölunnar 4,2% sem er í samræmi við hækkunina undanfarna mánuði. 

„Þrátt fyrir að töluvert hafi dregið úr hækkunum launa hefur kaupmáttur launa verið stöðugur undanfarna mánuði, og jókst frekar eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur í september var þannig 1,2% meiri en á sama tíma í fyrra. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launa aukist um rúm 26%, eða u.þ.b. 5,5% á ári.

Næstu samningsbundnu launabreytingar á almenna markaðnum verða ekki fyrr en í apríl á næsta ári og því má búast við að kaupmáttur láti eitthvað undan síga fram að því, nema launaskrið byrji að taka við sér,“ segir í Hagsjánni.