„Það er talsvert síðan svona stór hrina kom á þessum stað,“ segir Sigþrúður Ármannsdóttir landfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um jarðskjálftahrinuna sem nú stendur yfir á Norðurlandi.

Klukkan 00:59 í nótt varð jarðskjálfti um 5,5 á richterskalanum 15,3 kílómetrum austur af Grímsey. Skjálftinn fannst vel um allt Norðurland og bárust tilkynningar meðal annars frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri og Sauðarkróki. Nokkrir stórir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið: „Það eru oft hrinur á þessu svæði en ekki svona stórir skjálftar. Þarna á sér stað spennulosun en við getum ekki túlkað þetta frekar að svo stöddu. Það má búast við því að verði virkni þarna næstu daga,“ segir Sigþrúður. Hún segir að frá miðnætti séu komnir 200 eftirskjálftar.

Hver er stærsti skjálftinn sem hefur mælst á þessu svæði? „Það varð skjálfti árið 1910 sem er talinn hafa verið um 7 á richter. Það var ekki mikið um mælingar hér á landi á þessum tíma en hann kom fram á mælum erlendis. Út frá áhrifamati er hann staðsettur á svipuðum slóðum þar sem hrinan er nú.“

Og þeir sem óttast flóðbylgjur geta verið rólegir: „Þetta er gliðnunarbelti svo það er ekki mikil hætta á flóðbylgjum,“ segir Sigþrúður.