Í nóvember voru 8.200 manns atvinnulausir, eða 4,3% af vinnuaflinu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar , sem er aukning um 0,7 prósentustig frá því á sama tíma fyrir ári. Atvinnuþátttakan komin niður í 77,8% samkvæmt einum mælikvarða og hefur ekki verið lægri síðan 2011 á einum mánuði

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem Hagsjá Landsbankans vísar í voru 8.279 manns á atvinnuleysiskrá í nóvember sem var fjölgun um 579 frá lokum október. En frá því í nóvember í fyrra hefur fjölgunin numið 3.2002 manns, eða um 63%.

Þrátt fyrir það er þróunin í átt að auknu atvinnuleysi að mati bankans hægari en reiknað var með á fyrri hluta árs, og þó reikna megi með áframhaldandi versnandi stöðu á vinnumarkaði næstu misserin muni atvinnuleysi ekki aukast jafn mikið og reikna mátti með á tímabili.

Dulið atvinnuleysi í minni atvinnuþátttöku

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var samkvæmt Hagstofunni 79,4%, sem er um 2,6 prósentustigum lægri en í október og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 77,2% og hefur ekki verið lægra síðustu 6 mánuðina. Bendir bankinn á að það geti þýtt dulið atvinnuleysi.

Samkvæmt óleiðréttri mælingu er áætlað að um 201.300 manns á aldrinum 16 til 74 ára hafi verið á vinnumarkaði í nóvember sem jafngildir 77,8% atvinnuþátttöku. Hefur það hlutfall ekki verið jafn lágt í einum mánuði síðan í september 2011 að því er Landsbankinn bendir á. Samkvæmt þessum mælikvarða voru 194.100 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit, eða sem samsvarar 3,6% atvinnuleysi.

Samkvæmt bæði mælikvörðum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar var meðalatvinnuleysið síðustu 12 mánuðina mjög svipað, eða 3,4% nú í nóvember. Vinnutíminn virðist styttast eilítið á ný eftir að hafa lengst um 0,9 stundir í fyrra, en sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í nóvember 39 stundir, sem er stytting um 0,1 stund frá því fyrir ári.