Viðræðum um veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg hefur verið frestað fram í febrúar og eru óheimilar til 1. apríl. Þetta er meðal niðurstaðna af ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar NEAFC. Á fundinum var einnig ákveðið að draga verulega úr sókn í kolmunna og veiða alls 590 þúsund tonn. Þar af á Ísland tæplega 96 þúsund tonn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Á meðan ekki náðist niðurstaða vegna úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg var samþykkt að leyfa veiðar á 10.500 tonnum af úthafskarfa í síldarsmugunni á þriggja mánaða tímabili sem endar 15.nóvember. Veiðiheimildum verður ekki skipt milli aðila og veiðarnar stöðvaðar þegar heildaraflamarki er náð.

Á grunni samkomulags strandríkja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem stendur mjög vel um þessar mundir, var ákveðið að heildaraflamark fyrir árið 2009 verði 1.643.000 tonn. Í hlut Íslands á árinu 2009 koma rúm 238 þúsund tonn.