Ríkisendurskoðun ræddi ekki við fyrrverandi fulltrúa í bankaráði Seðlabanka Íslands við gerð úttektar á málskostnaðarmáli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Fulltrúarnir sátu í ráðinu með Láru V. Júlíusdóttur, þáverandi formanni ráðsins, þegar hún tók ákvörðun um að bankinn myndi greiða málskostnað Más. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir í samtalið við Morgunblaðið að það hafi talist óþarft að ræða við aðra fulltrúa í bankaráðinu við gerð úttektarinnar. Hann segir að spurningarnar í úttektinni hafi ekki beinst að bankaráðinu og því hafi talist nóg að ræða við Láru, þáverandi formann, og ritara bankaráðsins, ásamt því að lesa fundargerðir. Þá sá ríkisendurskoðun ekki tilefni til að ræða við Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, þrátt fyrir að hún sé beinn málsaðili, en Már hefur vísað til samtala við hana um launakjör hans frá júni 2009.

Í úttekt ríkisendurskoðunar kemur fram að ekkert bendi til þess að Már hafi átt þátt í að ákveða eða samþykkja greiðslu málskostnaðarins. Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðins fékk Már hins vegar reikningana senda á heimili sitt og óskaði eftir endurgreiðslu frá bankanum.