Íslendingar eru langt frá því að uppfylla sett markmið um endurvinnslu á gleri. Endurvinna átti 60 prósent af umbúðagleri í lok árs 2011 samkvæmt settum markmiðum, að því er segir í frétt Fréttablaðsins. Árið 2009 var ekkert gler endurunnið, eða núll prósent. Síðan þá hafa engar breytingar verið gerðar á meðhöndlun á gleri svo vitað sé. Markmiðin eru byggð á EES-samningnum og landið því að brjóta samninginn. „Mjög líklegt er að okkur verði stefnt, en það eru minni líkur á einhverjum sektum ef það er fyrirséð að við vinnum að því að bæta okkur,“ segir Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu í samtali við Fréttablaðið.

Munurinn á endurnýtingu og endurvinnslu er að með endurvinnslu er glerið brætt og aðrir glermunir gerðir úr því. Með endurnýtingu er glerið notað í eitthvað annað, til dæmis brotið niður og notað við stígagerð eða sem uppfyllingarefni ofan á urðunarstaði.Endurnýting og endurvinnsla er því ekki það sama. Íslendingar eru duglegir að endurnýta gler, en endurvinna það hins vegar ekki. Samtals var rúmlega níu tonnum af gleri safnað árið 2009. Ekkert var endurunnið, en tæp sex tonn endurnýtt eða 64 prósent.