Órói á hlutabréfamörkuðum hefur fengið marga fjárfesta til þess að velta fyrir sér hvort ný efnahagskreppa sé handan við hornið. Auðvitað er það ekki raunin – vegna þess að sú síðasta kláraðist aldrei í raun. Þetta segir Steve Keen, prófessor og yfirmaður hagfræði-, sögu- og stjórnmálafræðideildar hjá Kingston háskóla í London, í pistli á vef CNN.

Keen segir að kreppum á borð við þá sem hófst árið 2007 ljúki aðeins þegar undið er ofan af orsökum þeirra með borgun skulda, gjaldþrotum, afskriftum og verðbólgu. Í kreppunni miklu hafi nóg af öllu þessu fernu verið gert. Einkaskuldir í Bandaríkjunum hafi lækkað um næstum 100% af vergri landsframleiðslu, úr 130% niður í 35% þá. Til samanburðar hafi skuldir í Bandaríkjunum nú aðeins lækkað um innan við 20% frá því sem hæst var, sem var 175% árið 2010.

Ekki sé því búið að vinda ofan af kreppunni frá 2007. „Við erum að reyna að endurlífga efnhagslífið á skuldastigi sem er hærra en það sem verst lét á fjórða áratugnum. Og héldum við að þetta myndi virka?“

Það hefur virkað og mun virka til skamms tíma, segir Keen. Á meðan fólk sé tilbúið til að fá meira lánað en það borgar til baka þá verði áfram vöxtur. Hærri skuldir þýði aukið peningamagn í umferð og það drífi hagkerfið áfram. Svigrúmið til að halda lántökum áfram lengi sé hins vegar ekki til staðar, og efnahagsbatinn muni því fjara út á miklu skemmri tíma en áður. Hvergi sé ástandið greinilegra en á Wall Street, en Keen segir að allt frá því um mitt síðasta ár hafi mátt eiga von á því að hlutabréfaverð félli.