„Það er ákvörðun eigandans og ekki eðlilegt fyrir okkur að hafa sterkar skoðanir á því. Við vinnum með þeim eigendum sem eiga fyrirtækið hverju sinni. Ég held það sé hægt að reka fyrirtækið mjög vel hvernig sem eignarhaldið er.“ Þetta var svar Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, við spurningu Kjartans Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á Haustfundi Landsvirkjunar í dag. Kjartan spurði hvort það hefði einhver grundvallaráhrif ef seldur yrði minnihluti í fyrirtækinu.

Hörður tók tvö dæmi frá Noregi. Statoil, sem væri eitt best rekna olíufyrirtækið, og væri í eigu ríkis og einkaaðila. Einnig tók hann Statkraft sem dæmi sem væri alfarið í eigu ríkisins og rekstur gengi vel. Aðalatriðið væri að tryggja fyrirtækinu góða stjórnarhætti og gott umhverfi. Þetta væri að lokum ákvörðun stjórnmálamanna.