*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 11. október 2021 12:52

Ekki ómögulegt að standast próf MDE

Að mati dósents í lögfræði er gífurlega mikilvægt að vandað verði til verka á hverju stigi við mat þingsins á gildi kosninganna.

Jóhann Óli Eiðsson
Hafsteinn Þór á fundinum í dag.

Ekki er ómögulegt að afgreiðsla Alþingis á niðurstöðum þingkosninganna standist nýlegt próf Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Hafsteins Þórs Haukssonar, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, á opnum fundi undirbúningskjörbréfanefndar í morgun.

Sem kunnugt er hafa verið álitamál uppi um framkvæmd kosningar í Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt stjórnarskrá hefur þingið lokaorðið um niðurstöðurnar, hvort ágallar hafi verið á framkvæmdinni og þá hvaða afleiðingar þeir ágallar eiga að hafa. Virðast tveir möguleikar vera fyrir hendi, annars vegar að staðfesta kjörbréf útgefin af landskjörstjórn og hins vegar að boða til uppkosningar.

Bent hefur verið á nýlegan dóm MDE í þessu samhengi en sem kunnugt er þá byggir íslenska stjórnarskráin á þeirri dönsku, sem aftur á rætur að rekja til þeirra belgísku. Í öllum ríkjunum þremur hefur þing úrskurðarvald um lögmæti kosninga. Í téðum dómi MDE var talið að Belgía hefði brotið gegn rétti frambjóðanda þegar kjörnir fulltrúar höfnuðu því að láta endurtalningu fara fram.

Árekstur líklega óhjákvæmilegur

„Er árekstur við Mannréttindasáttmálann óhjákvæmilegur? Eða er hægt að forða honum eða milda hann? Ég tel ótvírætt að hægt sé að milda höggið en það eru tvær ástæður fyrir því að ég tel að erfitt verði að forða árekstri,“ sagði Hafsteinn Þór.

Fyrri ástæðan að mati Hafsteins er sú að íslenska og belgíska kerfið byggja á sama grunni. Síðari ástæðan er sú að í fyrrgreindum dómi MDE eru línurnar lagðar um hvaða skilyrði ríki þurfa að uppfylla til að slík meðferð fyrir þinginu geti komist gegnum nálarauga sáttmálans.

Samkvæmt MDE þá þarf í fyrsta lagi að ryðja öllum geðþótta úr vegi og komast að niðurstöðu á grundvelli laga og málefnalegra sjónarmiða. Svigrúm til mats er því lítið og þarf helst að vera bundið í lögum. Þá þarf málsmeðferðin að tryggja sanngjarna, hlutlæga og rökstudda ákvörðun. Hér heima blasir það við að lögin eru þögul um flest og líklegt að leiða þurfi málið til lykta með aðstoð meginreglna laga og eðli máls.

„Það er erfitt að ætla að bregðast við með ad hoc úrræðum en með því er ég ekki að segja að slíkt sé til einskis. Það getur þvert á móti verið mikilvægt. Þessi fundur er til að mynda til marks um að verið sé að reyna að vanda málsmeðferðina og taka málefnalega á þeirri stöðu sem uppi er. Það má síðan velta því fyrir sér hvort tilefni sé fyrir kjörbréfanefnd að setja sér starfsreglur og taka á því hvernig komast skuli að rökstuddri lagalegri niðurstöðu,“ sagði Hafsteinn Þór.

Leikslokasiðferði ekki lausnin

Viss blæbrigðamunur er á belgíska málinu og mögulegu máli gegn íslenska ríkinu ef til þess kemur. Valið í kjörbréfanefnd ytra fór til að mynda fram með lotteríi og í nefndina drógust fulltrúar sem höfðu beina hagsmuni af niðurstöðu kosningarinnar. Það mál varðaði síðan ekki gildi kosninganna heldur beiðni frambjóðanda til endurtalningar þegar fyrir lá að talsvert hipsumhaps hafði verið við framkvæmd talningar. Þegar kjörbréfanefndin skilaði tillögum sínum var það síðan þingsins sjálfs, líkt og staðan verður hér heima, að afgreiða þær en sú niðurstaða var eftir flokkspólitískum línum.

Benti Hafsteinn Þór á að í kjörbréfanefndinni nú væri enginn fulltrúi úr Norðvesturkjördæmi. Þeir þingmenn, sem og jöfnunarþingmenn, hafa aftur á móti atkvæðisrétt þegar atkvæði verða greidd um tillögu kjörbréfanefndar og „verða ekki neyddir til að sitja hjá“.

„Það breytir því ekki að vægi þess að vanda til verka við efnislega afgreiðslu málsins. Það er grundvallarmunur á því að falla á prófi MDE því að málsmeðferðin var ekki lögmælt eða af því að afgreiðsla þingsins var faustursleg. Áherslan verður að vera á að komast að niðurstöðu á grundvelli laga og málefnalegra sjónarmiða. Það er ekki hægt að kaupa sig frá því með einhverju leikslokasiðferði og fallast bara á allar kærur. Það verður að komast að rökstuddri niðurstöðu,“ sagði Hafsteinn Þór.

Dósentinn bætti því síðar við að í dómi MDE hefði verið að finna sératkvæði eins dómara sem hefði í raun fallist á niðurstöðu meirihlutans en bætt því við að hann sæi ekki í fljótu bragði hvernig hægt væri að mæta kröfunum í reynd. Gífurlega erfitt yrði að reyna að úthýsa pólitík og geðþótta úr slíkri ákvörðun.

Undanskilið valdi dómstóla?

Rétt er að geta þess að á öðrum vettvangi, til að mynda hjá Feneyjanefndinni, hefur máls verið ljáð á því hvort fyrirkomulag sem þetta gæti staðist ef unnt er síðan að skjóta niðurstöðu þingsins til dómstóla. Samkvæmt stjórnarskrá sker þingið úr um gildi kosninga en þeirri spurningu hefur ekki verið svarað afdráttarlaust hér heima hvort unn sé að skjóta þeirri afgreiðslu til dómstóla.

Vanalega er það svo að dómstólar troða sér ekki inn á valdsvið annarra handhafa ríkisvaldsins en hafa þó talist bærir til að meta hvort stjórnvaldsákvarðanir hafi uppfyllt form- og efnisskilyrði laga. Í kjölfar kosninganna til stjórnlagaþings óskaði borgari eftir afritum af gögnum hjá landskjörstjórn en þeirri beiðni var synjað, og síðar vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þar sem þar væri á ferð stjórnsýsla á vegum þingsins. Sé það raunin er ekki útséð með hvort slík stjórnsýsla sé undanskilin valdsviði dómstóla.

Yrði aðeins kosið í einu

Að loknum inngangi Hafsteins Þórs var opnað á spurningar frá nefndarmönnum og áheyrnarfulltrúum. Var hann meðal annars spurður að því hvort lög gerðu ráð fyrir því að uppkosning færi fram í einu kjördæmi eða hvort kjósa þyrfti á landinu öllu.

„Lögin eru alveg skýr að ef ágallar eru á framkvæmd í einu tilteknu kjördæmi þá fer uppkosning eingöngu fram í því en ekki landinu öllu,“ sagði Hafsteinn Þór. Þar væri á ferð endurtekin kosning, sömu listar, sömu frambjóðendur og sömu kjörskrár yrðu brúkuð. Staðan væri í raun sú sama og ef fresta hefði þurft kosningu sökum óveðurs.

Hafsteinn var einnig spurður um hvar hann teldi að skurðpunkturinn væri til að ógilda þyrfti kosningu. Væri nóg að mögulegt hefði verið að eiga við kjörgögn eða þyrfti það að vera sennilegt? Sagði Hafsteinn að það þyrfti einfaldlega að meta fyrir hvern ágalla fyrir sig. Hægt væri að beita almennum eða sértækum mælikvarða eða þá sértækum kvarða með öfugri sönnunarbyrði. Hann teldi þó að skortur á innsiglum á kjörgögnum dygði tæplega eitt og sér til þess að kosning yrði ógilt.

„Ef niðurstaðan yrði sú að veruleg hætta væri talin á að kjörgögnum hefði verið spillt, svo að ekki sé hægt að byggja á síðari talningunni, þá tel ég vafasamt að hægt sé að spóla til baka í hina svokölluðu fyrri talningu,“ sagði Hafsteinn Þór.

Tók hann af þeim sökum dæmi af kosningum þar sem allt hefði verið upp á punkt og prik. Í því ímyndaða dæmi varð hins vegar það óhapp að þegar flytja átti kjörgögn til Reykjavíkur, að talningu lokinni, þá varð það óhapp að bifreiðin valt og kjörgögnin spilltust. Lægi sú afstaða fyrir að allt hefði verið tipp topp í fyrstu atrennu þá yrði kosningin tæplega ógilt af þeim sökum.

„Ef sú afstaða liggur hins vegar fyrir, sem þið þekkið betur en ég, af hálfu þeirra sem stóðu að talningunni að ekki væri hægt að fullyrða með vissu um meðferð kjörgagnanna milli fyrri og síðari talningar, þá er ekki hægt að rannsaka gögnin. Með öðrum orðum þá er ekki lengur hægt að ganga úr skugga um framkvæmd kosningarinnar og möguleikinn til að staðreyna niðurstöðurnar er ekki fyrir hendi,“ sagði Hafsteinn Þór.