Hinn norski Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri, segir að það sé forgangsatriði að sýna fram á að ekki sé þörf á að leggja sérstaka áhættuþóknun á lán til íslenskra fyrirtækja, svo sem í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkugeiranum. Þannig megi laða að erlent fjármagn.

„Það er forgangsatriði að [...] sýna fram á að ekki sé ástæða til þess að leggja á slíka áhættuþóknun," segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið. „Í öðru lagi þarf að þróa viðskiptasiðferði og gegnsætt umhverfi og í þriðja lagi þarf að virkja lykilatvinnuvegi, svo sem sjávarútveginn, ferðaþjónustuna og orkugeirann og vekja athygli á styrk þeirra."

Hann segir að það sé ekkert sem segi „að sterkustu sjávarútvegsfyrirtækin, sem mörg eru í fremstu röð í heiminum, geti ekki laðað að sér erlent fjármagn og fengið lán á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði."

Að þessu þurfi hins vegar að vinna. Frumkvæðið þurfi að koma frá fleirum en einum aðila, til að mynda frá bönkunum, yfirvöldum og atvinnulífinu.

„Ef verkefni fyrirtækjanna hér eru álitleg er ekkert því til fyrirstöðu að erlendir fjárfestar stilli þeim upp við hlið annarra áþekkra alþjóðlegra verkefna og meti þau samkvæmt því."

Svein Harald Øygard var í lok febrúar síðastliðnum skipaður seðlabankastjóri tímabundið. Hann steig úr seðlabankastjórastólnum 20. ágúst en þá tók við Már Guðmundsson.

Ítarlegra viðtal við seðlabankastjórann fyrrverandi er í Viðskiptablaðinu.