Loðnuleitarskipin þrjú, Ásgrímur Halldórsson SF, Bjarni Ólafsson AK og Polar Amaroq, komu til lands í vikunni eftir nokkurra daga loðnuleit fyrir austan land.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, segir að vel hafi tekist að ná utan um gönguna þar fyrir austan. Vegna veðurs hafi þó ekki tekist að halda mælingum áfram norður fyrir land eins og nauðsynlegt sé.

Hann treysti sér ekki til að gefa neitt upp um stærðargráðuna, eða hvort þetta sé að einhverju leyti sama loðnan og fannst fyrir norðan land. Hann segir þó ljóst að loðna sé komin austur fyrir land.

„Hún gæti þá farið að ganga suður fyrir landið hvað úr hverju.“

Í framhaldinu verður haldið aftur af stað strax upp úr næstu helgi, og þá með fimm skipum eða hugsanlega fleiri.

„Miðað við veðurspána erum við að vona að við getum farið á mánudag aftur. Þá verður hægt að byrja þarna fyrir austan þar sem frá var horfið, og líka hérna vestan frá.“

Styttist í nýja ráðgjöf

Gangi það allt eftir ætti að vera hægt að gefa út nýja ráðgjöf fyrir vertíðina að loknum þeim leiðangri. Fyrr í mánuðinum var leitað fyrir vestan og norðan land, en hafís á Grænlandssundi varð til þess að ekki var unnt að leita loðnu þar á stóru svæði.

„Hafísspáin er nokkuð hagstæð, útlit fyrir að hann muni hörfa eitthvað um helgina. Þannig að við vonumst til að geta náð heildarmælingu til að bæta þessu við.“

Hafrannsóknastofnun gaf um miðjan desember út bráðabirgðaráðgjöf upp á 21.800 tonn, en að venju var boðað að ráðgjöfin yrði endurskoðuð þegar niðurstöður mælinga nú í byrjun árs liggja fyrir.

Eftir loðnubrest undanfarin tvö ár er mörgum farið að lengja mjög eftir því að komast í loðnu, enda mikil verðmæti í húfi.

Norðmenn fá 19.100

Nú bregður hins vegar svo við að samkvæmt reglugerðum, sem gefnar voru út 18. janúar og undirritaðar af Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra, koma 19.100 tonn í hlut Norðmanna, 1.591 tonn fara til Grænlendinga og 1.090 tonn fá Færeyingar.

Samtals fá þessar nágrannaþjóðir okkar því að veiða 21.800 tonn, eða allan þann kvóta sem gefinn hefur verið út samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Verði loðnuráðgjöf ársins ekki hærri en þessi 21.800 tonn þá fá Íslendingar sem sagt ekki að veiða neitt, ekki „pöddu“ eins og einhver orðar það.

Allar þessar úthlutanir eru gerðar samkvæmt samningum við Noreg, Grænland og Færeyjar. Samkvæmt þeim samningum eiga Íslendingar rétt á 80% heildaraflans, Noregur 5% og Grænland 15%. Að auki eiga Norðmenn að fá í sinn hlut rúmlega 25 þúsund tonn í skiptum fyrir þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi. Bráðabirgðaráðgjöfin dugar því ekki upp í þann samning.