Það gæti dregist til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfinu. Ekki er  raunhæft að ætla að skref verið tekið í afnámi gjaldeyrishafta fyrir þann tíma, að undanskildum leiðum sem koma „löglegum aflandskrónum“ til landsins í langtímafjárfestingar.

Þetta kom fram í aukayfirlýsingu seðlabankastjóra á stýrivaxtafundi í dag þar sem m.a. var fjallað um gjaldeyrishöftin.

Yfirlýsingin er í 8 liðum og sagði Már að annað en liður 8. liggi nú þegar fyrir.

Yfirlýsing vegna gjaldeyrishafta

Þessi yfirlýsing er gefin í því skyni að útskýra stefnuramma og núverandi áform varðandi afnám gjaldeyrishafta. Hún felur ekki í sér neinar nýjar upplýsingar aðrar en eina dagsetningu í punkti 8.

1. Víðtæk gjaldeyrishöft voru sett á í nóvember 2008 sem hluti af efnahagsáætlun stjórnvalda með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Höftin áttu að koma í veg fyrir verulega erfiðleika í tengslum við greiðslujöfnuð Íslendinga og höfðu það að markmiði að stuðla að stöðugu gengi án þess að treyst væri um of á vaxtatækið.

Höftin eru frávik frá skuldbindingum Íslands um frjálst flæði fjármagns samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EESsamningnum). Samkvæmt honum eru slík höft aðeins leyfð sem neyðarráðstöfun til skamms tíma. Höftin hafa verið kynnt stofnunum EES, eins og mælt er fyrir um í samningnum, án þess að mótbárur hafi komið fram. Það væri samt sem áður brot á EES-samningnum ef ekki er unnið í góðri trú að afnámi gjaldeyrishaftanna eftir að þau skilyrði sem sköpuðu neyðarástand eru ekki lengur til staðar.

2. Það hefur þess vegna verið eitt af markmiðum í áætlun stjórnvalda að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna. Að auki hafa gjaldeyrishöft í för með sér efnahagslegan og félagslegan kostnað sem hefur tilhneigingu til að aukast eftir því sem þau vara lengur.

3. Í ágúst 2009 birti Seðlabankinn áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna. Þessi áætlun var gerð í samráði við viðskiptaráðuneytið og AGS og samþykkt af ríkisstjórn Íslands. Líkt og kveðið er á um í upphaflegri áætlun var fyrsta skrefið til að afnema höft á innflæði fjármagns og útflæði sem því tengdist stigið 1. nóvember 2009.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þótt áætlunin segi fyrir um hvernig standa skuli að afnámi hafta á útflæði fjármagns þá eru engar dagsetningar þar að lútandi í áætluninni. Í staðinn er tekið fram að hið áfangaskipta afnám haftanna sé háð skilyrðum. Hversu hratt höftin yrðu afnumin var því háð því hvort sérstökum skilyrðum yrði fullnægt, og hversu vel eða illa fyrri skref hefðu reynst.

4. Í áætluninni er að finna nokkur meginskilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna. Hin mikilvægustu eru:

  1. þjóðhagslegur stöðugleiki, og þar með talið trúverðugar aðgerðir til að tryggja sjálfbær ríkisfjármál og minnkandi verðbólga;
  2. traust fjármálakerfi;
  3. nægilegur gjaldeyrisforði.

Þessi skilyrði hafa legið til grundvallar yfirlýsingum Seðlabanka Íslands og peningastefnunefndar um gjaldeyrishöftin. Tvö af þessum skilyrðum hafa verið uppfyllt, en traust fjármálakerfi er ekki fyrir hendi, að hluta til vegna óvissu um eiginfjárstöðu bankakerfisins í kjölfar tveggja hæstaréttardóma.

Í síðustu viljayfirlýsingu sinni til AGS skuldbundu stjórnvöld sig til að grípa til viðeigandi ráðstafana af þessu tilefni til að endurfjármagna bankakerfið fyrir áramót ef á þyrfti að halda. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að fjármálakerfið teljist traust en þarf ekki endilega að vera nægjanleg.

5. Peningastefnunefnd mótar ekki eða tekur ákvarðanir er varða áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna, þótt Seðlabankinn leiti eftir áliti og ráðum hennar um þetta efni. Peningastefnan tekur þó tillit til núverandi áætlunar og líkum á framgangi hennar. Með því tekur peningastefnunefndin tillit til áður nefndra skilyrða. Meta ber breytingar á yfirlýsingum nefndarinnar frá einum tíma til annars í þessu ljósi.

6. Þótt áætlunin frá ágúst 2009 hafi ekki verið endurskoðuð formlega hafa talsmenn Seðlabankans lýst því yfir, og kom það einnig fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar í ágúst, að nauðsynlegt gæti reynst að endurskoða áætlunina í ljósi breyttra aðstæðna og þeirrar reynslu sem fengist hefði.

Endurskoðuð áætlun verður gerð af Seðlabankanum í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og loks samþykkt af ríkisstjórninni. Þetta er í samræmi við ferlið við gerð upphaflegu áætlunarinnar. Endurskoðun áætlunarinnar þýðir ekki fráhvarf frá því takmarki að afnema gjaldeyrishöftin á komandi misserum, heldur er viðurkennd þörf til að endurmeta hvernig höftum verður aflétt í ljósi nýlegrar reynslu og breyttra aðstæðna.

7. Áður en ný áætlun verður kynnt gætu aðgerðir til að undirbúa afgerandi afnám hafta á fjármagnsútflæði litið dagsins ljós að því gefnu að ekki komi fram lagalegar eða aðrar hindranir. Hér gæti verið um að ræða aðgerðir til að leyfa, gegnum skipulögð uppboð, skipti á löglega fengnum aflandskrónum fyrir löglegar erlendar eignir innlendra aðila. Einnig kæmi til greina að leyfa fjárfestingu löglega fenginna aflandskróna í sérstökum langtíma verkefnum eða öðrum sértækum verkefnum á Íslandi.

8. Að gefnu því að það gæti dregist til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfinu, þá er ekki raunhæft að ætla að önnur skref en þau sem lýst var í lið 7 verði stigin til að aflétta höftum á útflæði fjármagns fyrir árslok. Auk þess verða engin slík skref stigin áður en endurskoðuð áætlun hefur verið kunngerð. Ennfremur verða engar grundvallarbreytingar á núverandi reglum gerðar fyrr en í mars 2011 þótt endurskoðuð áætlun verði tilbúin fyrir þann tíma. Undanskildar eru reglur sem nauðsynlegar kunna að reynast til að framkvæma þá aðgerð sem rædd var í lið 7.

Þessi skuldbinding er studd af efnahags- og viðskiptaráðherra. Hafa ber í huga að heimildir í lögum um gjaldeyrishöft renna út í lok ágúst 2011. Hins vegar gæti tillaga um framlengingu lagaheimildarinnar orðið hluti af endurskoðaðri áætlun, sem eins og áður sagði mun verða lögð fram fyrir marsmánuð 2011. Már Guðmundsson seðlabankastjóri