Fyrirhuguð stýrivaxtahækkun Evrópska seðlabankans í næsta mánuði til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu sendir ákveðin varnarorð til markaðsaðila. Hins vegar er ekki endilega rétt að túlka slíka vaxtahækkun sem fyrirboða um frekari hækkanir í kjölfarið, segir Jürgen Stark, stjórnarmaður í seðlabankanum. Hann bætti því jafnframt við að fjármálamarkaðir hafi skilið þau skilaboð sem Evrópski seðlabankinn hafi sent frá sér eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund. ?Við erum hins vegar ekki að tala um röð stýrivaxtahækkana,? segir Stark í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna. Jean-Claude Trichet, bankastjóri Evrópska seðlabankans, kom fjármálamörkuðum í opna skjöldu síðasta fimmtudag þegar hann tilkynnti að stýrivextir gætu hækkað um 25 punkta í júlí ? úr 4% í 4,25%. Slík hækkun væri ?möguleg,? en ekki örugg. Trichet vísaði til verðbólguhættu og staðfestu bankans að halda verðbólguvæntingum fjármálamarkaða og almennnings í skefjum. Hagfræðingar segja að ummæli Stark gefi til kynna að seðlabankinn hafi haft áhyggjur af því að fjármálamarkaðir hafi oftúlkað skilaboð Trichet. Markaðir með framvirka samninga sýndu að fjárfestar töldu líkurnar á fleiri vaxtahækkunum á þessu ári hefðu aukist mikið. Eftir varnarorð Trichet á fimmtudaginn var það mat sumra fjárfesta að vextir yrðu hækkaðir í þrígang á þessu ári. Í kjölfar ummæla Stark búast fjárfestar hins vegar aðeins við því að vextir verði hækkaðir tvisvar. Í frétt Financial Times er haft eftir Ken Wattret, hagfræðingi hjá franska fjárfestingabankanum BNP Paribas, að hugsanlega endurspegli ummæli Stark skoðanaágreining innan stjórnar Evrópska seðlabankans. Hins vegar sé ljóst að niðursveifla í hagkerfum aðildarríkja evrusvæðisins muni takmarka mjög svigrúm seðlabankans til að ráðast í miklar vaxtahækkanir. Sumir hagfræðingar hafa á hinn bóginn bent á, að þegar Evrópski seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt í desember árið 2005, hafi Trichet upphaflega sagt að bankinn væri ?ekki að hefja röð stýrivaxtahækkana.? Reyndin varð hins vegar önnur: Vextir voru hækkaðir samtals átta sinnum á næstu 18 mánuðum.