Framtíð ferðaþjónustunnar hér á landi hefur verið talsvert í umræðunni undanfarin ár enda vöxtur greinarinnar verið gífurlegur á tímabilinu. Nú er hins vegar útlit fyrir að tímabundinn samdráttur verði í fjölda ferðamanna hingað til lands. Fall WOW air og hátt verðlag spila þar stóra rullu.

„Í niðursveiflunni núna er viðbúið að lítil og meðalstór fyrirtæki muni lenda í basli. Launaliðurinn er gífurlega stór hjá þessum fyrirtækjum og ljóst að einhver fyrirtæki munu ekki ná að standa af sér storminn. Ég tel að þetta sé góður tímapunktur fyrir fólk og greinina til að ákveða með skýrum hætti hvert á að stefna. Hvað viljum við að fólk hugsi þegar það heyrir minnst á Ísland?“ spyr Xiaochen framkvæmdastjóri Guide to Iceland.

Undanfarið hefur þeirri hugmynd verið velt upp að Ísland sætti sig við að verðlag hér sé mjög hátt og markaðssetji sig sérstaklega fyrir ferðamenn sem séu tilbúnir til að verja meiri fjármunum. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins og fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, er í hópi þeirra sem viðrað hafa slíkar hugmyndir. Aðspurð segir Xiaochen að hún hafi sínar efasemdir um þessar hugmyndir.

„Að mínu mati er ekki skynsamlegt að einblína of mikið á einn hóp. Ísland er dýrt land og það þekkjast þess dæmi að fólk veigri sér við að heimsækja landið vegna þess hve dýrt það er. Sökum frægðar landsins og náttúrufegurðar er heimsókn hingað oft á „bucket“ lista fólks að koma hingað einu sinni en aðrir, fólk eins og ég, verða ástfangnir af landinu og vilja koma hingað aftur og aftur. Það er okkar skylda, líkt og annarra sem starfa á markaðnum, að tryggja að Ísland haldi áfram að vera áhugavert þannig að fólk heimsæki landið áfram,“ segir Xiaochen.

„Það er nauðsynlegt að tryggja fjölbreytni í ferðaþjónustu hér á landi. Það er ekki gott til lengdar ef allir bjóða upp á sömu staðina, ferðirnar og upplifunina. Við þurfum ekki endilega fleiri fyrirtæki sem bjóða upp á rúnt um Gullfoss og Geysi. Við þurfum eitthvað nýtt, spennandi og fjölbreytt. Það hefur komið fyrir að fyrirtæki, sem bjóða upp á sömu gömlu ferðina, hafa viljað koma í viðskipti til okkar. Í slíkum tilfellum höfum við bent þeim á það, og mögulega bent á hvað mætti betur fara, en á endanum er ákvörðun um slíkt viðskiptavinarins.“

Í samdrættinum nú hefur verið rætt um hlut milliliða, á borð við Airbnb, Booking og auðvitað Guide to Iceland, en einhverjum ferðaþjónustuaðilum finnst blóðugt hve stóran hluta af kökunni þau taka til sín. Xiaochen skilur þá umræðu en segir hana þó á nokkrum villigötum.

„Við erum að taka sömu prósentu og aðrir á lókal markaði en aðeins lítill hluti hennar endar í okkar vasa. Stærsti partur okkar hluta fer í að markaðssetja landið og ferðir sem eru í boði hér á landi og slíkt er dýrt. Þó að einhverjum kunni að finnast greiðslan til okkar blóðtaka þá má velta því upp hve stóran hluta bókanna má rekja til vinnu sem milliliðurinn hefur innt af hendi og nýtt til þess sína sérfræðikunnáttu. Við erum í mikilli samkeppni við aðra áfangastaði um það að fá fólk hingað en ekki annað. Okkar vinna, í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin hér á landi, miðar að því. Enda erum við öll á sama báti,“ segir Xiaochen.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .