Landssamtök lífeyrissjóða settu af stað hóp sérfræðinga til að meta hvort skynsamlegt væri fyrir lífeyrissjóði að lögsækja erlend matsfyrirtæki fyrir að ofmeta stöðu fyrirtækja sem fjárfest var í fyrir hrun. Sérfræðingarnir telja að slík málsókn sé ekki líkleg til árangurs, en fjallað er um málið í Fréttablaðinu i dag.

Sigurður Örn Ágústsson, framkvæmdastjóri og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein í fréttablaðið í gær þar sem hann talar um að það sé nauðsynlegt fyrir lífeyrissjóði að láta reyna á málsókn á hendur erlendum matsfyrirtækjum fyrir dómstólum í New York. Vegna greinarinnar sendu Landssamtök lífeyrissjóða frá sér fréttatilkynningu þar sem útskýrt var að sérfræðingar hefðu yfirfarið málið. Ákvarðanir um málaferli væru hins vegar teknar af stjórnum einstakra lífeyrissjóða.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Ástu Rut Jónsdóttur, stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verslunarmanna, að málsókn hefði verið rædd á stjórnarfundi lífeyrissjóðsins en komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að málsókn svaraði ekki kostnaði. Lífeyrissjóðurinn leitaði hins vegar ekki til sérfræðinga í bandarískum lögum, né kynnti sér niðurstöður sambærilegra dómsmála í Bandaríkjunum. Þá hyggst Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) ekki heldur aðhafast frekar í málinu miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir.