Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir lögbundna styttingu á vinnuviku vera slæma hugmynd. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafa lagt fram frumvarp til laga á Alþingi sem er ætlað að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 35.

Þorsteinn segir að lagabreytingin myndi ekki auka framleiðni eins og ætlunin sé „Það mun ekki auka framleiðni eitt og sér. Tækifæri fyrirtækja til að bregðast við slíku eru afar mismunandi," segir Þorsteinn. Nærtækara sé að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja með lægri sköttum og gjöldum.

Þá sé ekki rétt sem oft er haldið fram að Íslendingar vinni meira en aðrar þjóðir. „Við erum með um 37 stunda vinnuviku þegar horft er á virkar vinnustundir," segir hann. Þegar lögboðnir frídagar og lengd sumarleyfis séu tekin með í myndina blasi við annar veruleiki, og að Íslendingar vinni einna minnst allra þjóða í Evrópskum samanburði þegar það sé tekið inn í myndina.

Telja styttri vinnuviku farsæla

Tilganguri frumvarpsins er að auka framleiðni en það hefur verið viðvarandi vandamál í Íslensku þjóðfélagi hvað framleiðni er lág í mörgum atvinnugreinum í samanburði við önnur lönd í Evrópu. „Frakkland, sem hefur verið með 35 stunda vinnuviku síðan árið 2000, er með talsvert hærri framleiðni en Ísland og er mun ofar í mælingunni um jafnvægi milli vinnu og frítíma. Danmörk, Spánn, Belgía, Holland og Noregur eru efst á þessum lista, þar er vinnutíminn styttri en á Íslandi en framleiðnin meiri. Í öllum þessum löndum eru greidd hærri laun nema á Spáni. Ekki er því hægt að útskýra meiri framleiðni né hærri laun með löngum vinnudegi," segir í frumvarpinu.