Elon Musk, stofnandi Tesla og Space X, er ekki lengur ríkasti maður heims eftir að hlutabréf Tesla lækkuðu um 8,6% í gær. Fyrir vikið minnkaði auður hans um 15,2 milljarða dollara, en þetta kemur fram í frétt Guardian .

Musk fór fram úr Jeff Bezos , stofnanda Amazon, á auðmannalista Bloomberg í byrjun árs eftir að virði hlutabréf Tesla áttfölduðust í virði á síðasta ári. Musk er nú aftur kominn í annað sætið á listanum og eru auðæfi hans metin á 183 milljarða dollara samanborið við 186,3 milljarða dollara auðæfi Bezos.

Lækkun hlutabréfaverðs Tesla um 8,5% í gær má að hluta til rekja til tísts hans yfir helgina um að verðið á Bitcoin virtist vera hátt . Þau ummæli komu rúmum hálfum mánuði eftir að bílaframleiðandinn tilkynnti um kaup á Bitcoin fyrir einn og hálfan milljarð dollara.

Musk sagði á Twitter síðustu viku að ákvörðun Tesla um að kaupa Bitcoin endurspegluðu ekki einungis hans skoðanir. Að eiga Bitcoin væri minna heimskuleg gerð af lausafé en reiðufé og væri nógu ævintýralegt fyrir S&P500 fyrirtæki. Hann bætti við að einungis bjánar myndu ekki leita að öðrum valkostum þegar valdboðs gjaldmiðlar (e. fiat money) bæru neikvæða raunvexti.

Fjárfestirinn Peter Shiff sagði á Twitter að Bitcoin kaup Tesla væru ekki fordæmi sem aðrir forstjórar ættu að fylgja eftir þar sem gengi Tesla hefur fallið um 16% síðan rafmyntakaup þess voru tilkynnt. Musk svaraði honum með ritmynd (e. emoji) af eggaldin.