Samningur Norðuráls við Landsvirkjun um kaup á raforku felur ekki í sér ríkisaðstoð segir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Samningurinn er gerður á markaðskjörum að mati stofnunarinnar.

Þriðja endurnýjunin frá 1997

Í maí 2016 tilkynntu ESA um þriðju endurnýjun samnings Landsvirkjunar, um sölu raforku til álvers Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði. Árið 1997 var upprunalegur samningur fyrirtækjanna tveggja undirritaður en hann hefur nú verið framlengdur tvisvar.

Lagði ESA mat á samningsskilmálana og þær breytingar sem gerðar voru frá fyrri samningum auk þess að kynna sér arðsemisútreikninga sem Landsvirkjun og Norðurál lögðu til grundvallar samningnum.

Verð tengt markaðsverði raforku á Norðurlöndunum

Mat ESA er að samkvæmt gögnum sem Landsvirkjun lagði fram þá er samningurinn í samræmi við sambærilega samninga sem önnur raforkufyrirtæki á Norðurlöndum hafa gengist undir.

„Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi,“ segir í fréttatilkynningu ESA, en sá raforkumarkaður nær yfir Noreg, Danmörk, Svíþjóð og Finnland.

„Þá er samningurinn arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður. Því er ekki um að ræða ríkisaðstoð, að mati ESA.“

Heimilin borga brúsann

Hér má sjá útdrátt úr ítarlegri umfjöllun í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins um raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls.

Kaupir fyrirtækið 77% af orku veitunnar, sem stendur undir 41% af tekjum hennar. Heimilin nýttu 23% orkunnar en greiddu rest.