Tveir meðlimir peningastefnunefndar Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, kusu með því að hækka stýrivexti á vaxtaákvörðunarfundi í ágúst. Mun þetta vera í fyrsta sinn í þrjú ár sem ekki er samhljómur um stýrivexti innan peningastefnunefndarinnar, en í henni sitja níu manns.

Samkvæmt frétt Financial Times um málið vildu þeir Ian McCafferty og Martin Weale hækka stýrivextina um 0,25 prósentustig.

Við fréttirnar hækkaði breska pundið um 0,4% á móti Bandaríkjadal en lækkaði fljótt aftur þegar fregnir bárust af lægri verðbólgu í Bretlandi en spár höfðu gert ráð fyrir.

Rök þeirra fyrir stýrivaxtahækkun voru þau að með því hækka vextina strax væri hægt að gera það smám saman í litlum skrefum. Þá færi atvinnuleysi jafnframt hríðlækkandi.

Sérfræðingar telja þó að einhver bið verði í að fleiri meðlimir nefndarinnar taki undir með þeim McCafferty og Weale, í ljósi þess að verðbólga og laun í Bretlandi eru lág og vegna þeirra vandamála sem einkenna evrusvæðið. Þó benda sumir á að sú staðreynd að tveir einstaklingar, fremur en einn, eru þessarar skoðunar auki líkurnar á að stýrivextir verði hækkaðir á þessu ári.