Sérfræðingar seðlabankans telja það óljóst hvert vægi ferðamannastraums til Íslands yfir sumarmánuðina hafi á gengi krónunnar. Mikið var rætt um áhrif gengisins á efnahagslífið og þróun þess næstu misseri á fundi Seðlabankans með blaðamönnum og sérfræðingum sl. miðvikudag þar sem stýrivaxtaákvörðun var kynnt. Tveir þættir eru sérstaklega nefndir til sögunnar þegar bankinn skýrir styrkingu krónunnar. Bankinn telur að þrýstingur til veikingar krónunnar sé minni en áður vegna þess að hægt hefur á endurgreiðslum fyrirtækja á erlendum lánum. Þá er það sagt mögulegt að aukið innflæði gjaldeyris yfir sumarmánuðina vegna komu ferðamanna styðji við krónuna.

Már sagði á fundinum að starfsmenn bankans séu hins vegar ekki sannfærðir um vægi árstíðasveiflunnar, það er hvort hún sé raunverulega til staðar. Erfitt sé að segja til um slíkar sveiflur þegar aðeins liggja fyrir tvö ár til samanburðar. Þá séu sveiflur milli síðustu tveggja ára gerólíkar. Styrking hafi byrjað í júlí árið 2011 en í ár hafi hún byrjað mun fyrr, eða strax í apríl. Þá sé styrkingin í ár mun meiri en í fyrra. „Ég er klár á því, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, að þarna sé mun fleira á ferðinni en árstíðasveifla í ferðamennsku,“ sagði Már.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.