Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík segir að honum finnist Mjólkursamsalan hafa sofið á verðinum varðandi lögvernd á Skyri sem upprunavottað frá Íslandi.

„Ég er nú ekki sammála því, það er auðvitað alltaf hægt að vera vitur eftir á, og það er í sjálfu sér ekki bara Mjólkursamsalan af íslenskum aðilum sem gæti hafa haft áhuga á því að afla einhvers konar verndar á orðmerkinu skyr. Það var farið tiltölulega snemma af stað með það, áður en sala á skyri hafði hafist að neinum verulegum mæli. Það var víðast hvar bara ekki samþykkt, að það væri þannig vöruheiti að það gæti notið vörumerkjaverndar. Það var skilningur vörumerkjayfirvalda í flestum löndum í okkar umhverfi að skyr eitt og sér væri tegundarheiti eins og jógúrt, þó það hafi fengist samþykkt í Noregi og Finnlandi, sem hefur reynst okkur vel,“ segir Ari, en þegar hann er spurður út í hvort hefði ekki verið hægt að fá skyr upprunavottað frá Íslandi líkt og fetaostur er frá Grikklandi sagði hann:

„Þær reglur sem þar er vísað til eru á ensku kallaðar „geographical indication“ eða „definition of origin“ en þær ganga algerlega út frá því að viðkomandi vara sé þá algerlega framleidd úr hráefni frá viðkomandi svæði og stærsti hlutinn af framleiðsluferlinu færi fram þar. Það er alveg ljóst að með velgengni skyrs á erlendum markaði verður það ekki framleitt úr íslensku hráefni í stórum stíl. Þar myndi á einhverjum tímapunkti kúafjöldinn og annað slíkt vera takmarkandi þáttur í að við næðum miklum árangri,“ segir Ari og heldur áfram.

„Að sjálfsögðu yrði það líka verðlagningin á íslenskri mjólk, sem er dýrara hráefni heldur en mjólk annars staðar, og svo líka innflutningshömlur. Ef við flytjum skyr út til ESB þyrftum við að borga af því toll sem samsvarar 90 krónum á hvern lítra. Kvótinn sem við höfum er 380 tonn og við nýtum hann. Þannig að ég get ekki tekið undir það, mér finnst það ekki sanngjörn gagnrýni. Það var farið af stað snemma að reyna að festa orðmerkið skyr,“ segir Ari.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .