Ekki er full sátt um það innan ríkisstjórnarinnar hvernig yfirstjórn Seðlabankans á að vera. Fram kemur í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekki meiriháttar breytingar fyrirhugaðar á bankanum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði hins vegar í spjallþættinum Sunnudagsmorgunn á RÚV um liðna helgi að frumvarp til laga um breytingu á lögum  um Seðlabankann væri í vinnslu. Hann gerði ráð fyrir að fjöldi seðlabankastjóra væri það á meðal.

Fram kemur í Markaðnum að í endurskoðaðri áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa komi fram að frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands skuli lagt fram eigi síðar en 31. mars næstkomandi. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en í lok mars samkvæmt þingmálaskrá stjórnarinnar.

Í Markaðnum er fjallað um mismunandi fyrirkomulag í seðlabönkum á hinum Norðurlöndunum og í stærri ríkjum. Þá er jafnframt rifjað upp að seðlabankastjórum var fækkað hér á landi úr þremur í einn í febrúar árið 2009. Sparnaður við fækkunina var metinn á 32 milljónir króna á ári.