*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 22. október 2020 07:00

Ekki séð ástæðu til mikillar íhlutunar

Peningastefnunefnd hefur ekki séð ástæðu til mikillar magnbundinnar íhlutunar þrátt fyrir hækkandi langtímavexti.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ekki séð ástæðu til umfangsmikillar magnbundinnar íhlutunar frá því hann hóf að kaupa ríkisskuldabréf í maí, að því er fram kemur í fundargerð nefndarinnar frá því í byrjun október.

Framboð ríkisbréfa hafi „enn ekki aukist til muna“, og verðmyndun og virkni markaða verið eðlileg. Heimild bankans nemur 150 milljörðum króna, en aðeins hafa verið keypt bréf fyrir tæpan milljarð enn sem komið er.

Samhljómur er sagður hafa verið um að þótt langtímaávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefði þokast upp að undanförnu, væri ekki tilefni til kröftugri viðbragða að sinni.

Ávöxtunarkrafa 10 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa er nú 3,1% og hefur hækkað um 0,6 prósentustig síðastliðna þrjá mánuði. 10 ára verðtryggð ríkisskuldabréf bera nú 0,37% ávöxtunarkröfu, sem hefur hækkað um 0,25 prósentustig á sama tímabili.