Yfirskattanefnd (YSKN) hafnaði nýverið kröfu Skattrannsóknarstjóra (SRS) um að gera einstaklingi sekt þar sem hann hafði ekki gert nægilega grein fyrir söluhagnaði af rafmyntinni BitCoin.

Maðurinn hafði grafið eftir rafmyntinni á árunum 2009 og 2010, þegar það var auðvelt með hefðbundinni heimilistölvu, og selt hana árið 2016. Tekjur hans vegna þessa námu 27 milljónum króna.

Taldi SRS að maðurinn hefði með þessu skilað efnislega röngu skattframtali af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og komist hjá því að greiða fjármagnstekjuskatt. Maðurinn byggði aftur á móti á því að hann hefði leitað leiðbeininga, bæði hjá Ríkisskattstjóra og öðrum kunnáttumönnum, án þess að fá botn í það hvers kyns tekjur væru þarna á ferð. Fjármunina hefði hann gefið upp á framtali sínu. Taldi hann enga ástæðu til að gera honum sekt vegna þessa en hann myndi þó sætta sig við endurákvörðun gjalda með mögulegu álagi.

Í úrskurði YSKN segir að SRS hafi ekki fært fyrir því rök að ávinningur af BitCoin eigi undir lagareglur um ávinning af söluhagnaði eigna frekar en aðrar tekjutegundir. Ekki lægi fyrir skattframkvæmd á þessu sviði en það hefði verulega þýðingu um það hvort sektargreiðsla væri fyrirsjáanleg eður ei. Var manninum því ekki gerð sekt.