Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs, segist ekki hafa í hyggju að starfa áfram hjá blaðinu eftir eigendaskipti, en greint var frá því um helgina að Vefpressan ehf. hefði keypt útgáfuréttinn af vikublöðum sem Fótspor ehf. gaf út. Þetta segir Björn í stöðuuppfærslu á Facebook .

Þar segist Björn hafa verið spurður að því í útvarpsþættinum Harmageddon hvort hann myndi starfa áfram sem ritstjóri byðist honum það af hendi Björns Inga. Svar hans til Björns Inga væri eftirfarandi: „Ekki séns í helvíti, Björn Ingi Hrafnsson“.

Segir Björn að hann gæti aldrei átt trúnað við Björn Inga þar sem hann trúi ekki að hann hafi trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með sinni útgáfustarfsemi.

Stöðuuppfærsla Björns Þorlákssonar:

„Þá liggur það fyrir, kæru vinir. Var í viðtali á Harmageddon áðan og var spurður hvort ég myndi dansa við Binga ef hann byði mér ritstjórastöðu við það sem hann heldur að verði áfram hægt að kalla Akureyri vikublað en var blaðið okkar, okkur hefur verið sagt upp og hann er því ekki með neina vöru lengur að selja. Svar mit á Harmageddon eftir að hafa hugsað málið í tvær nætur: "Ekki séns í helvíti, Björn Ingi Hrafnsson." Ég gæti aldrei átt trúnað við þig, því ég trúi ekki að þú hafir trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með þinni útgáfustarfsemi. Held að þín áhersla sé á hreina sérhagsmuni. Sjálfstæðir og reyndir blaðamenn eru ekki skógarþrastarungar sem bíða með opinn gogginn eftir þínum peningum, sem enginn veit hvaðan koma. Lifi frelsið og gagnrýnin upplýsing. Netið færðu seint keypt upp!“