Ingibjörg Guðmundsdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, segir að stjórnvöld muni ekki koma að kjarasamningsgerðinni fyrr en viðsemjendur sjái til lands í viðræðunum. Stíft hefur verið fundað síðustu daga. Ingibjörg sagði, þegar Viðskiptablaðið náði tali af henni um miðjan dag í gær, að ómögulegt væri að spá fyrir um það hvenær línur myndu skýrast. „Þetta er bara í vinnuferli,“ sagði hún. Fulltrúar ASÍ funduðu með landssamböndum sínum í gærmorgun og með fulltrúum atvinnurekenda síðdegis. Fleiri fundir hafa verið boðaðir í dag.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í fyrradag að hann ætti von á því að á allra næstu dögum myndu stjórnvöld ræða við samningsaðilana um það með hvaða hætti ríkisstjórnin og Alþingi gæti komið að þessum málum.“Ríkisstjórnin, eins og ég hef margsagt úr þessum ræðustól og víðar, mun ekki skorast undan því að ræða við aðil  vinnumarkaðarins um það með hvaða hætti hún geti komið að málum og lagt gott til,“ sagði hann meðal annars.