Verð á matvælum hefur hækkað umtalsvert í heiminum upp á síðkastið en undirliggjandi er hátt heimsmarkaðsverð korns og annarra skyldra landbúnaðarvara. Þetta hefur leitt til almennt hærra matvælaverðs og skapað undirliggjandi verðþrýsting í hagkerfum heimsins.

Áhrifin hafa gert vart við sig á íslenska markaðinum með síhækkandi matvælaverði og sem dæmi má nefna að bara í desember síðastliðnum hækkuðu matur og drykkjarvörur um 1,5%, þar af brauð og kornvörur um 2,4 %. Þá hefur síðan í haust hveiti á Íslandi hækkað um 50% en heimsmarkaðsverð um 80%.

Bæði Bónus og Krónan sjá ekki fyrir endann á hækkun matvæla hérlendis, miðað við núverandi ástand, og spáð hefur verið um að hluti af hækkuninni sé varanlegur.

Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans, segir í samtali við Viðskiptablaðið á miðvikudag, að meðal annars má rekja hækkun kornsverðs til tveggja ástæðna. Annars vegar má rekja þróunina til hækkandi olíuverðs í heiminum, sem leiðir til meiri notkunar á korni og öðrum álíka landbúnaðarvörur í orkuframleiðslu.

Hins vegar má rekja þróunina að hluta til aukinnar áherslu á að nota umhverfisvænar orkuauðlindir og tryggja orkuöryggi í löndum heims.

Þetta hefur leitt til minnkandi framboðs á korni til matvælaframleiðslu, sem þrýst hefur upp verðinu á heimsmarkaði.

Ýmsir aðrir samverkandi þættir valda einnig hækkun á korni, eins og uppskerubrestur vegna óhagstæðs veðurfars í Evrópu og breyttar neysluvenjur í löndum eins og Indlandi og Kína sem auka eftirspurnar eftir landbúnaðarvörum.

Auk þess hefur mikil hækkun olíuverðs áhrif á framleiðslu og flutning korns og afleiddra vara.