Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr umhverfisráðherra fyrir Vinstri græna, segist vilja skoða betur mögulega gerð jarðganga í stað vegar um Teigsskóg eftir þeirri línu sem Vegagerðin hefur lagt til fyrir Vestfjarðarveg að því er Vísir greinir frá.

„Það fór fram þarna nýtt umhverfismat fyrir ekki all löngu síðan og Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að sú leið sem Vegagerðin vill fara er ekki besta leiðin með tilliti til umhverfisáhrifa,“ segir Guðmundur Ingi í morgunútvarpi Bylgjunnar.

„Það væri betra að fara með jarðgöng til að sneiða hjá því sem kannski hefði einna mestu áhrifin og ég myndi vilja líta til þess að skoða það betur.“ Guðmundur Ingi svaraði einnig gagnrýni um að hann nyti ekki trúnaðar vegna fyrra starfs sem framkvæmdastjóri Landverndar, enda hafi hann opinberlega talað gegn laxeldi og veglagningu um Teigsskóg.

Svarar hann því til að hann vilji finna tæknilegar lausnir á því að þróa laxeldi sem ekki hafi of neikvæð áhrif á vilta laxastofna, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur illa gengið hjá fiskeldisfyrirtækjum að fá leyfi til að fullnýta burðargetu vestfirskra fjarða.

Hringtenging og Hvalárvirkjun ekki á sínum óskalista

Loks segir hann ljóst að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sé ekki nógu mikið en hann segir ekki á sínum óskalista að koma á hringtengingu með tilheyrandi virkjunum í til dæmis Hvalá á Ströndum, þar sem eru gríðarlega fallegir en lítt þekktir fossar, sem lausn á því.

Segir hann raflínurnar klikka í slæmum veðrum og vilji hann skoða sem lausn á því að setja þær í jörð. „[É]g held að það hljóti að vera að ekki síst Vestfirðingar myndu fagna því að slíkt  yrði gert,“ sagði Guðmundur Ingi. „Ég vil láta skoða það hvort að það sé ekki bæði fljótlegri, skilvirkari og í raun til lengri tíma litið ódýrari leið heldur en að bíða eftir því í mörg ár að það verði einhver hringtenging.“