Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að ekki sé sjálfgefið að bankarnir séu hér í Reykjavík, þeir gætu verið hvar sem er annarsstaðar í heiminum með höfuðstöðvar sínar. "Við reynum að skapa þeim góða aðstöðu til sinnar starfsemi," segir Björn Ingi.

Hann bendir á að  Landsbankinn er að byggja nýjar höfuðstöðvar rétt við Tónlistarhúsið og ráðstefnuhúsið sem nú er í byggingu, Kaupþing stendur í miklum framkvæmdum við nýjar höfuðstöðvar og Glitnir ætlar einnig að stækka við sig.

"Allir þessir bankar kjósa að hafa höfuðstöðvar sínar í Reykjavík og ég fagna því auðvitað. Auk þess eru mörg önnur öflug fjármálafyrirtæki að þróast í borginni auk fjölmargra fyrirtækja í allt öðrum atvinnugreinum, svo það er alls ekki þróunin að fyrirtækin séu að færa sig úr borginni. Bæði Reykjavík og Faxaflóahafnir eru með langan lista af umsóknum um lóðir frá ýmsum fyrirtækjum sem við erum að leita leiða til að verða við. Á Gufunesi, Álfsnesi, Sundahöfn og Hólmsheiði svo dæmi sé tekið. Ef eitthvað er þá er ásóknin í lóðir innan Reykjavíkur meiri en áður og umsóknirnar umfangsmeiri, jafnvel upp á marga hektara lands í hverju tilviki fyrir sig. Það er ekki nema eitt fyrirtæki sem er að hugsa sér til hreyfings, Grandi, en jafnvel það er ekki ákveðið ennþá. En það hefur legið lengi fyrir hjá þeim að þeir yrðu að ákveða hvar þeir myndu hafa höfuðstöðvarnar. Þeir hafa verið með viðamikla starfsemi á Vopnafirði, Akranesi og í Reykjavík og valið hefur staðið og stendur enn á milli þessa staða. Aðstaða þeirra hér í Reykjavík hefur verið við Norðurgarð í Örfirisey og það er mikið að gerast þar um þessar mundir. Þar hafa átt sér mikil uppkaup og það er hugsanlega undirliggjandi ástæða þess að þeir velta upp þeim möguleika að flytja til Akraness með starfsemi sína. En fyrir okkur hjá Faxaflóahöfnum þá kemur það út á eitt. Reykjavíkurhöfn og Akraneshöfn er sama fyrirtækið. Þegar þessar hafnir voru allar sameinaðar var einmitt ákveðið að stóriðnaður yrði á Grundartanga og fiskvinnsla yrði á Akranesi eða í Reykjavíkurhöfn, þannig að það yrði ekkert slæmt ef fyrirtækið flytti sig uppá Akranes í sjálfu sér."

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Björn Inga í dag.