Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir ekki sjálfgefið að verðmæti bankanna haldist jafn hátt og það er í dag um ókomna tíð, og bendir á að fyrirséð sé kólnun í hagkerfinu á næstunni.

Ásdís tekur einnig í sama streng og Sigurður Atli Jónsson og segir mikilvægt að hafa í huga að í dag sé í gildi allt annað regluverk um bankarekstur en fyrir 10 árum. Bæði eftirlit og kvaðir hafi verið stóraukið. „Þegar rætt er um sölu bankanna þarf að hafa í huga að það er auðvitað mikið stífara regluverk og eftirlit með fjármálastofnunum í dag. Ef við berum umhverfið í dag saman við umhverfið sem var hérna fyrir hrun þá er það auðvitað bara allt annað. Svo eru auðvitað líka strangar kröfur um það hverjir mega fara með virkan eignarhlut í bönkunum, og við tökum alveg undir það að dreift eignarhald er mjög mikilvægt þegar til sölunnar kemur. Það þarf að vanda til verka.“

Hún segir að ekki megi gleyma því að þegar allt komi til alls séu bankarnir í áhætturekstri. „Mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga að þessir 400 milljarðar eru 16% af landsframleiðslu. Þarna eru gríðarlegir fjármunir bundnir í bönkunum, sem eru í áhætturekstri."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .