Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur í greiningu Íslandsbanka, segir Seðlabankamenn hafa nokkuð til síns máls að uppgreiðsla erlendra skulda hjá þeim aðilum sem ekki hafa gjaldeyristekjur geti ýmist verkað til veikingar eða haldið aftur af styrkingu krónunnar.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri var spurður um veikingu krónunnar að undanförnu á síðasta kynningarfundi stýrivaxtaákvörðunar. Hann sagði að veikt gengi krónunnar megi að hluta rekja til þess að íslensk sveitarfélög og fyrirtæki eru að greiða niður erlendar skuldir.

„En hafa ber í huga að til lengri tíma litið þá er það ekki slæmt að sveitarfélögin og þau orkufyrirtæki sem ekki hafa samsvarandi gjaldeyristekjur endurgreiði erlendar skuldir.“ Það sé hins vegar óheppilegt ef það gerist á miklum hraða. Hann segir eðlilegt að gjaldeyrisáhættan sé dregin saman hjá þessum aðilum. Gjaldeyriskaup til þess að endurgreiða skuldir séu mun hollari hagkerfinu en gjaldeyriskaup sem rekja má til neyslu. Skuldaniðurgreiðslur vindi ofan af ójafnvægi og minnki erlenda skuldastabbann.