Evrópski Seðlabankinn tilkynnti í síðustu viku að peningastefna yrði áfram aðhaldslítil í það minnsta fram á næsta ár. Stýrivextir verða áfram við núllið og opnar markaðsaðgerðir verða auknar á ný eftir tveggja ára hlé. Horfur í efnahagsmálum og aðstæður á mörkuðum hafa farið hratt versnandi í Evrópu – og víðar á Vesturlöndum – síðustu misseri. Tollastríð, Brexit og óleystur fjárhagsvandi SuðurEvrópu hafa leitt til þriðjungssamdráttar í hagvaxtarspá bankans fyrir evrusvæðið – úr 1,7% í 1,1% – frá áramótum.

Fyrir yfirlýsinguna í síðustu viku hafði Mario Draghi, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, gefið út að vextir yrðu ekki hækkaðir fyrr en næsta haust. Hann og bankinn höfðu hins vegar verið að undirbúa jarðveginn í töluverðan tíma fyrir aukið aðhald peningastefnunnar, en vextir voru síðast hækkaðir sumarið 2011, í tíð fyrirrennara hans, Jean-Claude Trichet. Það aðhald var þó skammlíft: eftir 0,5% vaxtahækkun með vorinu voru þeir lækkaðir aftur um haustið, aðeins átta dögum eftir embættistöku Draghi í byrjun nóvember, og svo aftur í desember, og enduðu árið jafn lágir og þeir hófu það. Á 20 ára afmæli evrunnar í ár hefur því peningalegt aðhald hennar aðeins verið aukið einu sinni svo einhverju nemi, á góðærisárunum 2006-2007.

Hefði ekki átt að koma neinum á óvart

Tilkynning bankans virðist hafa komið mörkuðum töluvert á óvart, en það segir ritstjórn fréttaveitunnar Financial Times einkennilegt. Hagkerfi evrusvæðisins hafi sýnt töluverð veikleikamerki síðustu mánuði, og vonir um aukinn þrótt í bandarísku efnahagslífi virðist að sama skapi ekki ætla að ganga eftir á næstunni. Eftir fjórar stýrivaxtahækkanir á síðasta ári gáfu forsvarsmenn bandaríska seðlabankans það út að fleiri hækkanir væru ekki á döfinni vegna aukins slaka í alþjóðahagkerfinu. Þegar svo var komið segir breska tímaritið það hafa mátt vera ljóst að allar líkur væru á að evrópskir kollegar þeirra fylgdu í kjölfarið. Einn stærsti og örast vaxandi markaður heims, Kína, stendur einnig frammi fyrir kólnun, þótt enn sé hagvöxtur þar kröftugur á vestrænan mælikvarða. Yfirvöld lækkuðu í síðustu viku hagvaxarmarkmiðið fyrir árið, meðal annars vegna deilna við Bandaríkin, og það stendur nú í 6-6,5%. Svipaða sögu er að segja hér heima fyrir. Lengi hefur verið ljóst að hið mikla uppgangsskeið síðustu ára hefur runnið sitt skeið, en þótt staðan í efnahagslífinu sé á margan hátt sterk til lengri tíma litið, hafa skammtímahorfur farið versnandi nýverið: Þjóðhagsspá Hagstofunnar lækkaði fyrir stuttu hagvaxtarspá sína fyrir árið úr 2,5% í 1,7%, sem er svipuð hlutfallsleg lækkun og í Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð