Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir að þrátt fyrir að flokkurinn hafi slitið stjórnarmyndunarviðræðunum við vinstri flokkana sé enn ákall í landinu um að pólitískum og efnahagslegum stöðugleika sé viðhaldið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er ástæðan fyrir viðræðuslitunum að flokknum þótti meirihlutinn of tæpur með eins manns meirihluta, þó Sigurður kannast ekki við að hafa sagt að hann beri ekki traust til Pírata í slíkum naumum meirihluta að því er mbl greinir frá.

„Það breytir því ekki að verkefnin fram undan eru af þeirri stærðargráðu að það þarf ríkisstjórn með breiðari skírskotun til að búa til pólitískan stöðugleika,“ segir Sigurður Ingi sem ekki segist spenntur fyrir því að mynda miðhægristjórn með Miðflokki, Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki.

„Við höfum allan tíman sagt að við getum ekki útilokað eitt né neitt til að búa til starfhæfa ríkisstjórn. Á sama tíma hef ég lagt áherslu á að ríkisstjórn í landinu, til að búa til pólitískan stöðugleika, þurfi breiðari skírskotun. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kalli.“