Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir áætlanir um nýtingu veggjalda til að flýta uppbyggingu stofnbrauta í kringum höfuðborgina hafa verið lagðar til hliðar af nýrri ríkisstjórn.

„[Þ]að er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum,“ segir Sigurður Ingi í samtali við RÚV en spurður hvort einhverjar slíkar áætlanir séu enn á borðum sagði hann: „Nei, þær voru lagðar til hliðar sem og ýmsar aðrar álögur sem stóð til að leggja á bíla, þó svo við séum að taka upp græna skatta eins og kolefnisskatta.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um lét Jón Gunnarsson fráfarandi samgönguráðherra skoða hvort nýta ætti veggjöld til að flýta uppbyggingu stofnbrauta og þar með láta ferðamennina sem mikið til nýta vegina taka þátt í kostnaði við uppbyggingu þeirra.

Í morgun fundaði ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um fjárlagafrumvarpið en stefnt er að því að þing komi saman í næstu viku og þar verði það fyrsta mál á dagskrá. Sigurður Ingi segir nú að horfa þurfi því til lengri tíma hvernig viðhald og nýframkvæmdir verði fjármagnaðar sem komi fram í næstu ríkisfjármálaáætlun.