Mannauðsstjórar segja það hafa verið mistök hjá Greg Smith, fyrrverandi framkvæmdastjóra afleiðuviðskipta hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs að gagnrýna stjórnendur bankans, þ. á. m. bankastjórann Lloyd  Blankfein, harðlega í opnu bréfi sem hann fékk birt í bandaríska stórblaðinu The New York Times í vikunni. Ásamt því sagði Smith starfsfólk bankans siðferðislega gjaldþrota sem hafi það eitt að markmiði að græða peninga.

Í netútgáfu bandaríska tímaritsins Forbes segir að með athæfinu hafi Smith gert út af við feril sinn og geti hann ekki átt von á að fá starf í fjármálageiranum á nýjan leik. Þetta, þ.e.a.s. að tala illa um fyrrverandi starfsfólk sitt, sé til þess fallið að fáir ef nokkur vilji vinna með honum aftur.

Tímaritið hefur eftir Roy nokkrum Cohen, sem reyndar vann fyrir Goldman Sachs á árabilinu 1990 til 2004, að Smith hafi í raun brugðist öllu starfsfólki fjárfestingarbankans. Hjá Goldmans Sachs starfa 30 þúsund manns.