Sigurður Ingi Jóhannson forsætisráðherra vill að tillögur stjórnarskrárnefndar sem honum hafa verið afhentar verði afgreiddar á sumarþingi svo hægt verði að ljúka málinu áður en kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningarnar í haust hefjist.

Málamiðlanir fulltrúa allra flokka

Nefndin var skipuð fulltrúum allra flokka sem sæti eiga á Alþingi og hefur hún nú skilað af sér þremur frumvörpum til stjórnskipunarlaga þar sem sett eru inn ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur. Nánar má lesa um tillögurnar hér .

„Þetta eru auðvitað tillögur sem hafa verið unnar býsna lengi í samstöðu margra og eru málamiðlanir. En mér líst vel á að menn hafi náð saman um þær og tel að þarna sé komin niðurstaða sem við getum unnið áfram með,“ segir Sigurður Ingi í samtali við RÚV .

Undanþága um stjórnarskrárbreytingu ekki nýtt

Er þá hugmynd forsætisráðherra að stjórnarskrárbreytingin fari fram samkvæmt hefðbundinni leið, sem felst í því að einfaldur meirihluti samþykki stjórnarskrárbreytingu, svo verði þing rofið, boðað til kosninga og nýtt þing samþykki breytinguna strax þegar það kemur saman.

Mælt er fyrir um að þetta sé eina leiðin til að hægt sé að breyta stjórnarskránni, sem taki þá gildi þegar nýtt þing hafi samþykkt hana. En í aðdraganda vinnu að stjórnarskrárbreytingum hafi verið samþykkt undanþága sem heimili stjórnarskrárbreytingu án þingrofs, heldur með þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar ef 2/3 þingmanna samþykki breytinguna fyrst, en undanþágan rennur út 30. apríl 2017.