Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hvorki tibúinn að lýsa yfir trausti né vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson vegna Wintris-málsins svokallaða sem hefur verið til umræðu á fjölmiðlum og á þingi. Þetta segir Bjarni í viðtali við Rás 2 í dag. Í viðtalinu, sem tekið var í gegnum síma milli Bandaríkjanna og Íslands, vill Bjarni ekki svara því hvort hann telji að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks muni falla á næstu dögum.

„Við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins skynjum ágætlega umræðuna í þjóðfélaginu. Fólk er nokkuð slegið og það er þung undiralda," sagði Bjarni í viðtalinu. „Við veltum því fyrir okkur í þingflokknum hvað á til bragðs að taka - og ég mun setjast niður með forsætisráðherra um leið og ég kem heim - við höfum reyndar talast einu sinni við um helgina."

Aðspurður um hvernig honum fyndist staða forsætisráðherra vera eins og í pottinn er búið segir Bjarni að hún sé þröng. „Ríkisstjórnin [er þá í þröngri stöðu] um leið." Hann vildi þá ekki heldur lýsa yfir trausti eða vantrausti, því hann vinnur að sögn ekki þannig að samstarfsflokkurinn fái yfirlýsingar frá sér í fjölmiðlum. Því er enn nokkuð óvíst hver staðan er.