Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að stefnt sé að því að þetta verði síðustu fjárlögin þar sem fjáraukalög verða sjálfsagður hlutur. Unnið er að því að ljúka frumvarpi um opinber fjármál, sem á að koma í veg fyrir að stofnanir keyri fram úr fjárheimildum sínum.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Vigdís að upplýsingar sem komu frá þremur ráðuneytum á fundi fjárlaganefndar í gær gefi tilefni til aukinnar bjartsýni um hallalaus fjárlög í ár. Hún segir að staða ýmissa ríkisstofnana sé betri en búist var við og því sé ekki tilefni til að auka útgjöld.

Eins og VB.is greindi frá fundaði fjárlaganefnd í gær með fulltrúum frá þremur ráðuneytum, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Fjárlaganefnd vildi á fundinum fá skýringar á framúrkeyrslu ríkisstofanana, sem undir ráðuneytin heyra, á fyrri hluta ársins. Heildarútgjöld ráðuneytanna þriggja voru undir fjárlagaheimildum, þó einstaka stofnanir hafi farið verulega fram úr heimildum.