Samstaða er um það í ríkisstjórninni að leggjast ekki gegn meðgöngu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í málsókn EESA, eftirlitsstofnun EFTA vegna meints brots á EES-samningnum í Icesave-málinu. „Ég tel mikilvægt að varðveita samstöðuna í þeim málaferlum sem eru í vændum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í svari sínu við fyrirspurn Ólafar Nordal um meðgönguna.

Ólöf spurði hann í óundirbúnum fyrirspurnartíma hvort ráðherra hafi beitt sér fyrir því að mótmæla framkomu framkvæmdastjórnar ESB og hvort ekki sé einsýnt að hlé þurfi að gera á aðildarviðræðum stjórnvalda og ESB á meðan málið er óleyst. Hún þrýsti jafnframt á að fá svör við því hvort málið hafi verið rætt í ríkisstjórn.

Hvetur þingheim til að sýna samstöðu

Steingrímur sagði málið hafa verið rætt í ríkisstjórn og benti á að ekki megi blanda óskyldum málum saman, þ.e.a.s. aðildarviðræðum við ESB og Icesave-málinu.

„Ég er ekki talsmaður þess að menn rjúki upp til handa og fóta. Íslendingar hafa krafist þess að halda þessum málum aðskildum. Við værum litlu nær ef við settum þessar viðræður á ís áður en komið verði að mikilvægum málaflokkum,“ sagði Steingrímur og benti á að opna verði fyrir viðræður í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum áður en næstu skref verði tekin.

Þá sagði Steingrímur meðgöngu framkvæmdastjórnar ESB ekki af því tagi að það kalli á æsing. Málaflutningur í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum hafi verið vel undirbúinn og hvatti til samstöðu í því á Alþingi. „Við eigum að standa saman um þá samstöðu. Það gildir líka um stjórnarandstöðuna,“ sagði hann.