Niðurstöður úr athugun Fjármálaeftirlitsins vegna útboðs Haga liggja fyrir en FME telur ekki tilefni til að rannsaka frekar hugsanleg innherjasvik eins og segir í tilkynningu frá eftirlitinu.

Fram kemur í niðurstöðum eftirlitsins að ef upplýsingar vegna gengislána Haga hjá Arion Banka hefðu komið fram fyrr, þ.e. áður en til útgáfu lýsingar kom, hefði seljandi hlutanna hugsanlega getað fengið hærra verð á hlut í útboðinu í ljósi bættrar stöðu félagsins. Fjármálaeftirlitið telur að upplýsingarnar teljist mikilvægar og geti skipt máli við mat fjárfesta á þeim verðbréfum sem um ræðir.

Í tilviki Haga var um að ræða tvö lán sem gerð voru upp árið 2009 í tengslum við endurfjármögnun félagsins og enginn ágreiningur stóð um, en í lýsingu Haga var meðal annars fjallað um þá endurfjármögnun sem félagið fór í gegnum haustið 2009. Við endurgreiðsluna frá Arion jukust eignir Haga um ríflega 510 milljónir króna frá því sem fram kom í lýsingunni en það samsvarar um 2% af efnahagsreikningi félagsins og 3,1% af markaðsvirði, miðað við útboðsgengi sem var 13,5 krónur á hlut.

Samkvæmt tilkynningunni frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að það telji að Hagar hafi ekki gert sér grein fyrir því að til endurgreiðslu gæti komið vegna þeirra lánasamninga sem gerðir höfðu verið upp 2009 og enginn ágreiningur hafði verið um. Enginn starfsmaður bankans hafði samband við Haga til að ræða mögulega endurgreiðslu. Félagið hafði ekki krafist þess að bankinn tæki þá samninga til skoðunar m.t.t. hugsanlegrar endurgreiðslu né stefnt bankanum eftir að umræddur dómur Hæstaréttar féll. Þá höfðu engir þeir sérfræðingar sem félagið hafði fengið til sín við undirbúning að skráningu á skipulegan verðbréfamarkað vakið athygli á slíkum möguleika.

Fjármálaeftirlitið telur að rétt hefði verið að gefa út viðauka við birta lýsingu við þessar aðstæður. Um mikilvægar upplýsingar var að ræða sem máli gátu skipt við mat fjárfesta á verðbréfunum. Upplýsingarnar komu fram eftir að lýsing var staðfest en áður en viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði hófust. Viðaukinn var gerður, staðfestur og birtur um sólarhring eftir að Högum voru gerðar kunnar þessar nýju upplýsingar, en skv. 46. gr. laga um verðbréfaviðskipti skal viðauki staðfestur og birtur innan sjö virkra daga.