Friðrik Sophusson, formaður bankastjórnar Íslandsbanka er sammála þeim sjónarmiðum um að ekki sé tímabært að velta fyrir sér aðskilnaði starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka hér á landi þar sem fjárfesting væri í lágmarki. Þessi sjónarmið koma fram í nýutkominni skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins.

Friðrik sagði mikilvægt að fylgjast vel með því sem næstu nágrannaþjóðir okkar gera í þessum efnum. Þá benti Friðrik einnig á þau sjónarmið skýrsluhöfunda að ekki væri einboðið að efna til strangara eftirlits og reglukerfis í fjármálageiranum. Fremur ætti að beina sjónum manna að betri og samræmdari heildarhagstjórn og skýrum reglum um verkaskiptingu og ábyrgð. Góð yfirsýn væri lykilatriði sem og heilbrigð dómgreind og huglægt mat á aðstæðum. Þetta kom fram í ræðu Friðriks á aðalfundi Íslandsbanka var haldinn í gær.