"Það er alveg ljóst að það er ekki þægilegt fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og Össur að vera með höfuðstöðvar á Íslandi. Það hefur ekki auðveldað okkar skráningu erlendis að vera íslenskt fyrirtæki. Það vegur á móti að Össur er mjög gott félag – alveg sama hvers lenskt það er. Þess vegna hefur okkur tekist þetta en það er sannarlega ekki plús að vera íslenskt félag og ekki  heldur fyrir mig sem stjórnanda félagsins," segir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar í samtali við Viðskiptablaðið.

Undanfarið ár hefur verið erfitt að vera með starfsemi á Íslandi fyrir jafn alþjóðlegt fyrirtæki og Össur. Þess vegna velta menn því oft fyrir sér hvort Össur verði áfram með höfuðstöðvar sínar á Íslandi, ekki síst í ljósi þess að félagið er nú að meirihluta í eigu erlendra fjárfesta en nýlega minnkaði stofnandi félagsins, Össur Kristinsson, hlut sinn niður í 5%

Að sögn Jóns er staðsetningin á Íslandi oft til trafala. ,,Því nær sem við komum Íslandi því meira vandamál verður staðsetningin. Í Bandaríkjunum eru menn ekki að hugsa mikið um slíkt en á Norðurlöndunum er þetta enn neikvætt. Það mun hins vegar breytast. Ég verð var við það í kringum okkar starfsemi að þegar menn taka sér tíma til þess að skilja félagið og alþjóðlega starfsemi þess og hve lítið við eigum undir Íslandi þá verða menn mjög hrifnir af félaginu."

Um það bil 8% af kostnaði Össurar er í íslenskum krónum sem gerir það að verkum að það er hagkvæmara en ella að reka starfsemi á Íslandi. Jón segir hins vegar að það verði ekki til þess að starfsemi verði flutt til Íslands, til þess sé ástandið of óöruggt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.