Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre-flokksins í Danmörku, hefur gefist upp á því að reyna að mynda meirihlutastjórn fjögurra flokka á hægri vængnum.

Þrátt fyrir nafngiftina er Venstre-flokkurinn hægrisinnaður flokkur og fer hann með stjórnarmyndunarumboð í Danmörku eftir sigur í þingkosningum á fimmtudag. Markmiðið var að mynda meirihlutastjórn ásamt danska þjóðarflokknum, Íhaldsflokknum og Frjálslynda bandalaginu.

Rasmussen greindi þó frá því í dag að myndun slíkrar stjórnar sé ómöguleg og að ljóst sé eftir fundarhöld helgarinnar að stefnur flokkanna séu einfaldlega of ólíkar.

Rasmussen mun funda með Margréti Þórhildi Danadrottningu á mánudag og þarf hann þar að fá nýtt umboð frá henna til að reyna að mynda minnihlutastjórn.