Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að ráðuneytinu berist og þar séu afgreiddar að meðaltali ein til tvær umsóknir um uppreisn æru árlega og svo hafi verið síðustu 30 ár. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi hafa allir ráðherrar aðgang að upplýsingum um hverjir sækja um og skrifa undir meðmæli um uppreisn æru.

En í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skýrir Sigríður ferlið enn betur og bendir á að efni skjala um veitingu uppreisnar æru séu ekki trúnaðarmál fyrir ráðherrum þó þær upplýsingar eigi ekki að fara út fyrir hana.

Skjölin ekki trúnaðarmál fyrir ráðherrum

,,Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum," segir Sigríður en á þeim tímapunkti sem gögnin sem um er rætt var Sigurður Ingi Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins forsætisráðherra en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

,,Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun."

Taldi rétt að ræða fjölskyldutengslin við forsætisráðherra sem kom af fjöllum

Sigríður segir þó að allt þangað til í síðustu viku hafi hún ekki séð gögn í nokkru máli er lýtur að uppreist æru og hafi verið afgreidd í ráðuneytinu fyrir hennar tíð, utan frumrits tillögu til forseta í máli Roberts Downey.

,,Ég óskaði aldrei eftir því og hafði ekki nokkurn hug á að setja mig inn í einstakar embættisfærslur forvera minna. Hinn 21. júlí var ég hins vegar upplýst um það af ráðuneytisstjóra, án þess að hafa eftir því leitað, að við skoðun eldri gagna hefði komið í ljós að meðal umsagna í einu máli sem afgreitt hafði verið sama dag og umsókn Róberts, hafi verið umsögn föður forsætisráðherra.

Vikurnar á undan, í tengslum við mál Róberts Downey, höfðu verið sagðar misvísandi fréttir af því að forsætisráðherra, sem þá var fjármálaráðherra, hafi á einhvern hátt haft aðkomu að afgreiðslu málsins. Ég hafði ekki látið þær fréttir mig nokkru varða enda fyrir mína tíð í embætti.

Allt að einu, í ljósi þessara fjölskyldutengsla ráðherrans við einn umsagnaraðila taldi ég rétt að ræða þetta við forsætisráðherra. Hann kom af fjöllum. Síðar var það staðfest að forsætisráðherra hafði alls ekki gegnt stöðu innanríkisráðherra við afgreiðslu málsins í september 2016. Hann sat hins vegar ríkisstjórnarfundinn sem afgreiddi málið til forseta."

Óeðlilegt að umsagnir séu ekki sannreyndar

Sigríður segist hafa fengið tillögu frá sérfræðingum ráðuneytisins á vordögum um að leggja til við forseta að tilteknum einstaklingi yrði veitt uppreist æra, en þar kom fram að meginreglan eins og hún hefði verið framkvæmd undanfarna áratugi kveði á um 2 ár frá því að refsing sé að fullu tekin út.

,,Við skoðun mína á málinu komst ég að þeirri niðurstöðu að framkvæmd við veitingu uppreistar æru hefði ekki verið í samræmi við löggjafarviljann eins og hann var árið 1940 er lögleidd voru þau ákvæði um uppreist æru sem gilda í dag. Ég þekki hins vegar vel það sjónarmið stjórnsýslunnar að jafnræðis þurfi að gæta við afgreiðslu mála og að sambærileg mál fái sambærilega meðferð.

Sjálfri fannst mér það einnig óeðlilegt að umsagnir manna, sem ráðuneytið óskar eftir til frekari staðfestingar á því að hegðun umsækjanda hafi verið góð á tímabilinu, hafi ekki verið sérstaklega sannreyndar með einhverjum hætti þótt ekki væri nema með einu símtali til umsagnaraðila," segir Sigríður  sem einnig bendir á að ráðuneytunum hafi hingað til ekki talið sér stætt á samkvæmt jafnræðisreglu að gera upp á milli umsækjenda.

Agreiðslan orðin vélræn og stjórnsýslan borið löggjafann ofurliði

,,Á þessum tímapunkti í byrjun maí komst ég að þeirri niðurstöðu að áratugalöng framkvæmd við veitingu uppreistar æru hafi leitt til heldur vélrænnar afgreiðslu á umsóknum um uppreist æru, því miður með vísan til skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Að mínu mati hefur stjórnsýslan þannig borið löggjafann ofurliði. Ég féllst ekki á þessa framkvæmd og hef ekki veitt neinum uppreist æru."

Sigríður segist jafnframt vera mjög hugsi yfir þeirri kröfu fjölmiðla að óska eftir gögnum í þessum málum, sem eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær var þegar vitneskja um meðal ýmissa blaðamanna og stjórnarandstæðinga, þar á meðal Birgittu Jónsdóttir sem viðurkenndi að hafa heyrt af undirskrift föður forsætisráðherra fyrir löngu í samhengi við að hún og aðrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óskuðu eftir gögnum um slík mál.

Ævafornt fyrirbæri

,,Uppreist æra er ævafornt fyrirbæri þótt hún sé sjaldan í fréttum. Það er því skiljanlegt að ekki sé öllum ljóst hvað í henni felst og hvað í henni felst ekki. Í uppreist æru felst ekki að viðkomandi maður hafi ekki framið brot sitt. Í henni felst ekki að brotið hafi ekki verið alvarlegt. Í henni felst ekki einu sinni að brotið komi ekki lengur fram á sakavottorði," segir Sigríður sem segist ekki í vafa um að opinber umræða um þessi mál valdi aðstandendum sárindum.

,,Í uppreist æru felst að dómur um refsingu sem hefur verið afplánuð eftir þeim reglum sem um það gilda hefur ekki sérstök réttaráhrif lengur. Hinn dómfelldi öðlast borgararéttindi sín að nýju. Hann er jafn sekur um brot sitt og hann var áður."