Jón Helgi Pétursson tók við starfi framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, sem er eitt elsta starfandi fjármálafyrirtæki landsins, undir lok síðasta árs. Fyrirtækið var stofnað árið 1987 sem Kaupþing Norðurlands og hefur verið rekið á Akureyri allar götur síðan.

„Ég er ekki þessi týpíski fjármálamarkaðsmaður, held ég. Ég passa allavega ekki inn í steríótýpuna, án þess þó að varpa nokkrum skugga á kollega mína,“ segir Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa. Jón Helgi býr á Grenivík og keyrir 2005 módel Citroën C3 til og frá vinnu en hann  hefur starfað hjá fyrirtækinu í 13 ár. Hann segir að með árunum hafi sýn hans á lífið breyst. Áður hafði hann meiri áhuga á hvað væri að gerast en velti nú meira fyrir sér hvers vegna það væri að gerast.

„Ég er alinn upp við að faðir minn var með sykursýki og endar með því að hann missir fæturna. Síðan fær mamma krabbamein sem hún komst yfir. En við þetta þá fer maður einhvern veginn hægt og rólega að þroskast. Ég var ekki eins fyrir tuttugu árum og ég er í dag. Það eru önnur atriði sem skipta máli í lífinu núna. Það er þó ekki þar með sagt að allt hitt skipti ekki máli, alls ekki, þetta eru nauðsynlegir hlutir. Það er bara svo auðvelt að missa sjónar af því sem skiptir raunverulega máli. Flest getum við unnið tarnir en ef þú ert ekki með gott jafnvægi milli heimilis og einkalífs annars vegar og vinnunnar þinnar hins vegar þá endar þetta með því að það verður óánægja á öðrum hvorum staðnum. Þá skiptirðu kannski um vinnu því þú telur að hún sé ástæðan fyrir því að hlutirnir ganga ekki og gerir svo nákvæmlega það sama á nýjum stað og skilur ekkert í því hvers vegna hlutirnir breytast ekki. Eða þá að heimilislífið fer í rúst og þá endarðu óhamingjusamur í vinnunni,“ segir Jón Helgi.

„Svo er bara spurningin hvar menn finna jafnvægið.“ Hann vonast  til að geta stýrt Íslenskum verðbréfum í „markvissum og sjálfbærum vexti sem byggi á kjarnastyrkleikum fyrirtækisins. Það er lykillinn“.

Með fleiri tíma í sólarhringnum

Þegar fjármálafyrirtæki hafa flest þá tilhneigingu að safnast fyrir á litlu svæði í stórum borgum, bæði hérlendis og erlendis er að sumu leyti áhugavert að finna höfuðstöðvar fjármálafyrirtækis á landsbyggðinni. Nútímatækni hefur hins vegar gert það að verkum að fyrirtæki sem eiga viðskipti með ósnertanlegar vörur á borð við fjármálagerninga geta í raun verið hvar sem er í heiminum. „Ég held að það fari ofboðslega í taugarnar á fólki úti á landi þegar það fyrsta sem fólk af höfuðborgarsvæðinu gerir er að dásama hvað það er notalegt að vera í kyrrðinni á landsbyggðinni. Þegar ég er í Reykjavík og ekki í vinnuerindum þá er allt voða þægilegt nema kannski þegar ég fer út í umferðina,“ segir Jón Helgi.

„Það er hins vegar þannig hér á Akureyri að fyrir fólkið sem vinnur hjá okkur þá hefur það tæknilega fleiri tíma í sólarhringnum en mjög margir sem vinna í Reykjavík og búa ekki í nágrenni við vinnu og þurfa að skutla börnum hingað og þangað. Ef þú þarft að skutlast hérna þá geturðu hoppað úr vinnu og komið aftur eftir tíu mínútur,“ segir Jón Helgi. „Þú hefur meiri tíma þannig að ef þú vinnur sambærilegan vinnutíma þá hefurðu meiri tíma með fjölskyldunni. Það er því kannski auðveldara fyrir fólk að ná þessu jafnvægi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .