Unnið er að frumvarpi um verðtryggingu í fjármálaráðuneytinu en í þeirri vinnu er ekki tekið mið af því að afnema verðtrygginguna, heldur lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána og stytta hámarkstíma þeirra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að skoðað hafi verið að lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána úr fimm árum í tíu ár, þannig að ekki verði veitt skammtímalán.

Einnig hafi verið skoðað hvort þrengja ætti að 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár. Hann segir að í hvorugu tilvikinu sé rætt um að banna verðtryggð lán.

Bjarni vill ekkert fullyrða um tímasetningu á framlagningu frumvarpsins á þingi fyrr en vinnunni er lokið og málið farið í gegnum ríkisstjórn.