*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 18. ágúst 2019 12:12

Ekki upplifað þörf á sameiningu

Forstjóri FME sér ekki fram á grundvallarbreytingu á starfsemi þess við sameiningu við Seðlabankann.

Júlíus Þór Halldórsson
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, segist hlakka til að kynna starfsemi Fjármálaeftirlitsins fyrir Ásgeiri Jónssyni, nýskipuðum seðlabankastjóra.
Haraldur Guðjónsson

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segist ekki hafa upplifað sérstaka þörf á því að sameina stofnunina Seðlabankanum, eins og samþykkt var á Alþingi nú í vor. „Okkur hefur bara gengið vel að þróa okkar starfsemi sem sjálfstæð stofnun. Við höfum ekki upplifað það að við þyrftum á því að halda að vera hluti af Seðlabankanum eða annarri stjórnvaldsstofnun.“

Hún tekur þó undir að einstök atriði í núverandi fyrirkomulagi megi færa til betri vegar og vísar í því sambandi í athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lausafjáreftirlit.

„AGS hefur ítrekað bent á að það sé óheppilegt að lausafjáreftirlit með bönkum sé hjá Seðlabankanum á meðan allt annað eftirlit er í FME. Þetta er mjög óvenjulegt, og kemur til vegna þess að þegar FME var stofnað varð lausafjáreftirlitið einfaldlega eftir í Seðlabankanum þegar eftirlitið var fært í hina nýju, sjálfstæðu stofnun. Það er ákveðin áhætta þarna, og ákveðinn tvíverknaður auðvitað líka, vegna þess að vitanlega heyrir lausafjáráhætta líka undir okkar starfssvið þó að við séum ekki með þetta daglega lausafjáreftirlit.“

Þrátt fyrir þetta segir Unnur mikið samstarf hafa verið milli FME og Seðlabankans um bæði lausafjáreftirlit og fjármálastöðugleika, sem hafi gengið og þroskast mjög vel, og sé því gott veganesti fyrir sameininguna. „Það er mjög mikilvægt að spyrða saman eindarvarúðina og þjóðhagsgreininguna sem Seðlabankinn vinnur.“

Úrræðin pólitísk en óvinsæl
Hún ítrekar þó að tiltölulega lítil reynsla sé enn sem komið er af aukinni áherslu á fjármálastöðugleika og þeim nýju verkfærum sem henni hafa fylgt á alþjóðavettvangi. „Þetta var stóri lærdómur fjármálaáfallsins. Við höfum verið að innleiða úrræði eins og eiginfjárauka á bankana og veðsetningahlutföll, en það er ekki komin mikil reynsla á þessi úrræði og önnur tiltæk, svo sem hlutfall skulda af tekjum eða greiðslubyrði. Alþjóðlega eru menn enn að rýna þetta og greina áhrifin; hversu mikið gagn er af þeim og hvaða upplýsingar þarf til þess að beita þessu rétt. Þetta er í gífurlegri þróun.“

Þessum úrræðum er ætlað að tryggja að fjármálahrunið endurtaki sig ekki. Beiting þeirra kann hins vegar að vera óvinsæl og því þurfa stofnanir á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann að vera faglegar og sjálfstæðar. „Það er stundum sagt að það sé hlutverk eftirlitsstofnananna að taka púnsskálina úr partíinu þegar það stendur sem hæst.“

Á sama tíma segir Unnur sum úrræðanna – svo sem þau sem hafa áhrif á aðgengi almennings að lánsfé til fasteignakaupa – pólitísk í eðli sínu. Því vegist á sjónarmið um aðkomu stjórnmálamanna og faglega hagstjórn. Í upphaflega sameiningarfrumvarpinu stóð til að beiting takmörkunar á aðgengi að lánsfé yrði háð staðfestingu ráðherra, en það ákvæði var síðar tekið úr frumvarpinu í meðförum þingsins og lögin samþykkt án þess.

Nánar er rætt við Unni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.