Í eigendastefnu Bankasýslu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir eftirfarandi um launakjör forstjóra og bankastjóra: „Kjararáð ákveður laun bankastjóra og forstjóra fjármálafyrirtækja sem ríkið á meira en helmingshlut í. Stjórnir bera annars ábyrgð á að starfskjarastefnu sé fylgt og ber þeim að útskýra og réttlæta launaákvarðanir sínar. Í þeim tilvikum sem ríkið á ekki meirihluta gilda almennar reglur og stjórn ákveður launakjör.“

EIns og fram hefur komið í fjölmiðlum um helgina hefur stjórn Bankasýslunnar ákveðið að endurnýja ekki umboð Kristjáns Jóhannssonar, lektors í viðskiptafræði, til setu í stjórn Arion banka en aðalfundur bankans fer fram á fimmtudag. Ástæðan er samþykki Kristjáns á launakjörum Höskuldar H. Ólafssonar, forstjóra bankans, en fréttir af launum hans hafa valdið talsverðu uppnámi í samfélaginu og hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, m.a. sagt að launakjör Höskuldar séu kjaftshögg fyrir þá sem hafa þurft að takast á við launalækkanir og atvinnuleysi.

Ekkert kemur fram í eigendastefnu um að stjórnarmönnum á vegum Bankasýslunnar beri að vinna gegn ákvörðunum stjórna um launakjör forstjóra og staðfestir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar það í samtali við Fréttablaðið í dag að Kristján hafi ekki brotið gegn eigendastefnu.